Ástkæra, ylhýra málið
og allri rödd fegra!
blíð sem að barni kvað móðir
á brjósti svanhvítu;
móðurmálið mitt góða,
hið mjúka og ríka,
orð áttu enn eins og forðum
mér yndið að veita.
Veistu það, Ásta! að ástar
þig elur nú sólin?
veistu að heimsaugað hreina
og helgasta stjarnan
skín þér í andlit og innar
albjört í hjarta
vekur þér orð sem þér verða
vel kunn á munni?
Veistu að líf mitt ljúfa
þér liggur á vörum?
fastbundin eru þar ástar
orðin blessuðu.
„Losa þú, smámey! úr lási“
lítinn bandingja;
sannlega sá leysir hina
og sælu mér færir.