Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Dalvísa


Spila

Skoða handrit

Fífilbrekka! gróin grund!
grösug hlíð með berjalautum!
flóatetur! fífusund!
fífilbrekka! smáragrund!
yður hjá ég alla stund
uni best í sæld og þrautum;
fífilbrekka! gróin grund!
grösug hlíð með berjalautum!
 
Gljúfrabúi, gamli foss!
gilið mitt í klettaþröngum!
góða skarð með grasahnoss!
gljúfrabúi, hvítur foss!
verið hefur vel með oss,
verða mun það enn þá löngum;
gljúfrabúi, gamli foss!
gilið mitt í klettaþröngum!
 
Bunulækur blár og tær!
bakkafögur á í hvammi!
sólarylur, blíður blær,
bunulækur fagurtær!
yndið vekja ykkur nær
allra best í dalnum frammi;
bunulækur blár og tær!
bakkafögur á í hvammi!
 
Hnjúkafjöllin himinblá!
hamragarðar! hvítir tindar!
heyjavöllinn horfið á
hnjúkafjöllin hvít og blá!
skýlið öllu helg og há!
hlífið dal er geysa vindar!
Hnjúkafjöllin himinblá!
hamragarðar! hvítir tindar!
 
Sæludalur! sveitin best!
sólin á þig geislum helli!
snemma risin, seint þá sest;
sæludalur! prýðin best!
þín er grundin gæðaflest,
gleðin æsku, hvíldin elli!
Sæludalur! sveitin best!
sólin á þig geislum helli!

Extra: Fífilbrekka! gróin grund!
Til baka