Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Drottinn gaf og hann drottinn tók


Drottinn gaf og hann drottinn tók,
drottins nafnið lofað sé.
Einatt það mér yndi jók,
eg er gerður úr steini og tré;
seinast, þegar ég sá í gær
sannlega komna háðung nær
landa mína – ég lifði samt,
lítið er lítið, og stutt er skammt.
 
Og lifði vel – og líst það sé
löglegt verk, þó að 14 manns
þjóðina mína hneppi í hlé;
hún á að vera þrælafans,
og þeir sem að hittu’ á þenna veg,
þeir eru sigldir eins og ég,
utan þetta einn eða svo,
og á við hina suma tvo.
 
Hafðu, bóndi minn! hægt um þig,
hvur hefir skapað þig í kross?
dýrðin vor þegar sýnir sig
þér sæmir best að lúta oss.
Á alþinginu áður var
ekki neitt nema höfðingjar;
bíddu nú við, og sjáðu senn:
svona á það að verða enn.
 
Taktu nú ekki orð mín samt
sem illu gamni fagni ég,
þegar að svo af skornum skammt
skýlaus rétturinn kemst á veg.
Hefndardagurinn eftir er,
„en enginn veit nær þetta sker“;
samt sem að áður held eg hitt,
hvur muni seinast éta sitt.

Extra: Drottinn gaf og hann drottinn tók
Til baka