Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Formannsvísur


1. Framróður
 
Hafaldan háa!
hvað viltu mér?
berðu bátinn smáa
á brjósti þér,
meðan út á máva-
miðið ég fer.
 
Svalt er enn á seltu,
sjómenn vanir róa,
köld er undiralda,
árum skellur bára;
dylur dimmu éli
dagsbrún jökulkrúna;
svæfill sinnir ljúfum
svanna heima í ranni.
 
Föður minn á miði
móðir syrgði góðan,
köld er undiralda,
árum skellur bára;
bræður mína báða
bæjum sneyddi ægir;
svalt er enn á seltu,
sjómenn vanir róa.
 
Einatt ölduljóni
á óalegan sjóinn
hrundu hart um sanda
hraustir menn úr nausti;
heill kom heim að öllu
halur og færði valinn
hlut í háum skuti
hjúa til og búa.
 
Björgum enn til bjargar
báti, verum kátir!
svæfil sinnir ljúfum
svanna heima í ranni.
Nótt er enn, þótt ótta
af sé liðin hafi;
dylur dimmu éli
dagsbrún jökulkrúna.
 
Hræðumst lítt, þótt leiði
löður árarblöðum
eld í spor og alda
úfin froðu kúfist;
rerum fast úr fjöru,
fram gekk tamin snekkja
vel á vogi svölum.
Við erum nú á miði!
 
2. Seta
 
Mardöll á miði
í myrkbláum sal!
seiddu nú að sviði
sækindaval;
láttu fara í friði
fengsælan hal.
 
 
Stjóri sökk að sjávargrunnum,
situr yfir hvikum unnum
veiðimaður á valtri skeið;
förum öngul beittan beita,
báru knýja og fiska leita
þöngli nær á þorskaleið.
 
Bítur undir borði gráu;
blótaðu ekki seiði smáu,
slepptu því heldur, maður minn!
Ég er að draga þorsk úr þara,
það varð honum feigðarsnara
að hann gleypti öngulinn.
 
Hjálpi drottinn höndum öllum!
hækkar dagur á austurfjöllum,
senn á báru sólin skín.
Dragðu, sveinn! úr djúpi köldu
dagverð þinn, sem býr í öldu,
hlutartalan hækki þín!
 
Hvað mun hugsa þessi þorri,
þilju sem að undir vorri
háskatólin hremma fer?
þótt þeir sjái, séu dregnir
synir þeirra, beitufegnir
gamlir þorskar gleyma sér.
 
Ég hef varla við að draga;
verði það svona alla daga,
meðan nokkur maður rær!
Nú er hlaðinn bátur að borði,
blessaður unninn nægtaforði;
þökk og heiður sé þér, sær!
 
3. Uppsigling
 
Útrænan blíða,
sem oft kysstir mig!
láttu nú líða
yfir leifturstig
fleyið mitt fríða,
svo faðmi ég þig.
 
 
Reisum tré, svo renni að ósi
rangajór, því langar stórum
nú að heilsa bæ og búi
báruþegn, er stýri gegnir;
breiðum voð, svo gráan græði
getum kvatt, því nóg er setið.
Sælla vart er eitt að öllu
en að sigla heim til kvenna!
 
Bíður kona heima á hlaði,
hrædd og fegin seglið eygir,
sér að hleypur, hyggur steypist
hrannaljón á djúpu lóni;
vonin dregur, óttinn agar,
undan lítur þá og flýtir
sér að kyssa, sinn að blessa
son og minn, á rjóðar kinnar.
 
Herðið, drengir! hratt á strengjum,
horfði við á goluborða
nú að leystust tengslin traustu,
teygir blakkur sævar makka;
geysa tekur gangi fúsum
gnoðin mín um hvíta boða.
Sælla vart er eitt að öllu
en að sigla heim til kvenna!
 
Lægjum voðir nú í næði,
nóg er siglt, sem fyrr var róið,
knararstefni vel að vörum
víkjum undan sævarríki.
Þökkum drottni þeim er hlotnast
það oss lét að allir getum
hraustir borið heim að nausti
hlutarval úr fermdum skuti.

Extra: Hafaldan háa!
Til baka