Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Grátittlingurinn


Ungur var eg, og ungir
austan um land á hausti
laufvindar blésu ljúfir,
lék eg mér þá að stráum.
 
En hretið kom að hvetja
harða menn í bylsennu,
þá sat eg enn þá inni
alldapur á kvenpalli.
 
Nú var trippið hún Toppa,
tetur á annan vetur,
fegursta hross í haga,
og hrúturinn minn úti.
 
Þetta var allt, sem átti
ungur drengur, og lengi
kvöldið þetta hið kalda
kveið eg þau bæði deyði.
 
Daginn eftir var aftur
upp stytt, svo að menn hittu
leið um snjóvgar slóðir
storðar, og frost var orðið.
 
En það sem mest eg unna
úti – Toppa og hrútur –
óvitringarnir ungu
einmana kuldann reyna.
 
Sekur var eg, og sækja
sjálfsagt hlaut eg með þrautum
aleigu mína og ala
ötull bæði við jötu.
 
Hvurnig fór? Hér eg gjarna
hjarta mannlegt um sanna,
að hvað sem hinu líður
hjartað gott skóp oss drottinn.
 
Ég fann á millum fanna
í felling á blásvelli
lófalága við þúfu
lítinn grátittling sýta.
 
Flogið gat ekki hinn fleygi,
frosinn niður við mosa,
augunum óttabljúgum
á mig skaut dýrið gráa.
 
Hefði eg þá séð mér hefði
hundrað Toppum og undrum
ótal hornóttra hrúta
heitið drottinn, eg votta:
 
Abrahams dýrðardæmi
drengur í litlu gengi
aldrei á Ísafoldu
eftir breytir, en neitar.
 
Kalinn drengur í kælu
á kalt svell, og ljúft fellur,
lagðist niður og lagði
lítinn munn á væng þunnan.
 
Þíddi allvel og eyddi
illum dróma með stilli
sem að frostnóttin fyrsta
festi með væng á gesti.
 
Gesti yðar! því ástar
óhvikul tryggð til byggða
vorra leiðir á vorum
vegarslynga tittlinga.
 
Lítill fugl skaust úr lautu,
lofaði guð mér ofar,
sjálfur sat eg í lautu
sárglaður og með tárum.
 
Felldur em eg við foldu
frosinn og má ei losast;
andi guðs á mig andi,
ugglaust mun eg þá huggast.

Extra: Ungur var eg, og ungir
Til baka