Komið er að dyrum,
kallað er úti,
skotmaður spyr:
„er skolli heima?
lambsfót sé eg liggja
og legg úr sauði,
ræfil af rjúpu –
reiður er þér.“
Tófa:
(inni fyrir)
Heima segi’ eg mig,
heill og sæll, vinur!
gestur inn göfugi,
gakk nú til stofu;
dyr eru lágar,
dimmt er í húsi
fáráðs frumbýlings,
fyrirgefðu það.
Skotmaður:
Út er að ganga
og undir renna
vopn voveifleg
og að velli falla;
báðu mig bændur
belg þinn að hrjá,
og blóðdrekki
að bana verða.
Tófa:
Annt er mér inni
í ofan hrundum
urðarhóli
orpnum moldu;
margs ber að gæta
móður ungri,
sona fjögra
og sex dætra.
Ein sit eg inni
annast hlýt
kafloðna hvolpa
í krá dimmri,
hlaupa þeir um holur,
hrökklast þeir í gjótur,
steðja þeir um steina,
stunda á útkomu.
Höfuðlaust heita
heimili má,
þá bóndinn er
á burtu genginn;
rann refur minn
til rjúpnaveiða
búi sínu
bjargir að fá.