Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Dec 13, 2019

Ad matrem orbatam


Hví grátið þér
þanns í gröf hvílir,
ungan elskuson?
örðug ganga
var oftar geymd
mörgum mæðudögum.
 
Helgur engill
hjarta saklausu
í yðar faðmi felst;
sá man trúfastur
uns tími þrýtur
lítill verndar vinur.
 
Tár þau trúlega
er tryggð vakti
söfnuð sjóði í
góðverka yðar
fyri guð flytur
sem elskar einlægt brjóst.
 
Þær munu skærstar
er þér skýi borin
líðið til ljóss sala,
fagurt skart
yðar friðarklæðis,
glansperlur glóa.

 

Samið á árunum 1826-1828.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b).
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.


Til baka