Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Kveðja til Uppsalafundarins 1843


„Bræður munu berjast
og að börnum verða“
ógnar hin aldna spá;
fram komu fyrr
- og að fullu sé –
öll þau orð völu.
 
Fundist hafa bræður
við Fýrisá,
faðmast fóstbræður;
tryggðum treystust,
trausti bundust
synir samþjóða.
 
Ást mætir ást
og afli safnar
meir en menn viti;
margur dropi
verður móða fögur
og brunar að flæði fram.
 
Eldur er í norðri,
ey hefir reista
móðir yfir mar,
beltað bláfjöllum,
blómgað grasdölum,
faldað hvítri fönn.
 
Búa þar og rækja
bræður yðrir
forna frændsemi;
muna, þótt margt
hafi milli borið,
ættstofn allra vor.
 
Kveð eg yður, unga
Austmenn samhuga,
vel fyrir vora hönd;
kveð eg yður kossi
kærra vona
og handar heitbandi.
 
Kref eg yður arfs
og ættartrausts,
bróðurbands og tryggða,
sem fremst þér vitið
að föðurleifðar
vorrar vel gættum.
 
Blaðist æ og blómgist
til blessunar
viður vináttu,
sem góður andi
gróðursetti
yðar á Óðinshæð.
 
Hreysti, ráðsnilli
og hugprýði
vina styðji von;
sigri sannindi
og samheldi.
Ást guðs öllum hlífi!

Extra: Bræður munu berjast
Til baka