Hér liggja sofin
und svarðarmeni
elskuð æskublóm,
blíðari blundi
að brjósti móður
svaf ei sonarauga.
Hannes og Pétur!
hnignir moldu að
bræður á barnsaldri!
hvar þér nú sannið
- því það sannið þér –
að farsæll er hvur saklaus sofinn?
Vonarstjarna
vandamanna
skundaði að skýbaki,
máa maður
í moldarfjötrum
fram yfir líf líta.
Samið árið 1827.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b).
Frumprentun í: Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson. Jón Ólafsson og Jón Sigurðsson hafa séð um útgáfuna. Rvík 1913 [Fyrirsögn: „Eftir börn“].