Þá sastu úti undir húsagarði,
en eftir litla stund hún kom í móti
þér, sem að áður varst með sorg í sinni,
og sagði: „Réttu koss að móður þinni.“
Og nú er aftur hryggð í huga þér,
en hversu þyngri léttum drengjatárum!
nú skilst þér, vinur! „einmana“ hvað er,
þar einn þú hrekst í dimmum harmabárum;
nú veistu, hvernig hjartað brjóstið ber,
er blóðið logar þar í djúpum sárum,
og aldrei kemur oftar þig að hugga
þín elsku móðir, falin dauðans skugga.
Það svíður – aldrei oftar líta fær
þú augna ljósið fyrsta og skærsta þinna;
ó, hvað er vorið, meðan moldin grær
á móðurleiði? til hvers er að vinna?
Það svíður – aldrei oftar, vinur kær!
þú athvarf skalt í móðurskjóli finna;
harmaðu þreyttan þig á nótt og degi,
í þögn og kyrrð, svo hryggðin sigra megi.