Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Jan 16, 2020

Hér sé friður! með heilsu þín


„Hér sé friður! með heilsu þín,
hvurnig gengur?“ „O! eg held verr –
höfuðverkur og hóstapín
hafa svo dregið kraft úr mér.“
 
„O jæja – og það er heldur hart
hvurnig útreið að Tyrkinn fær,
það er mannhatur mestan part,
mikið er Rússans grimmd frábær.“
 
„Svo get eg ekki sofið vel,
svíður brjóstið ef hræra skal.“
„Ja so? og víst mun Emanúel
ofan á verða í Portúgal.“

 

Samið árið 1829.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 a II). Eiginhandarritið er á sama miða og Borgavísa og er kvæðið fyrirsagnarlaust.
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847. [Fyrirsögn: „Læknirinn“].


Til baka