Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Jan 16, 2020

Hví viltu, andsvala


Skáldið:
(í spánska sjónum)
 
Hví viltu, andsvala
austankul,
svo á segli vaka?
hví viltu meina
mér að sjá
Dofra sólhávu sali?
 
Hví viltu meina
manni sjóleiðum
hæðir Herthu líta?
dökkt er á djúpi,
dimmar öldur rísa,
mig langar landsýn í.
 
Vindurinn:
Vegu bláa
vestur um haf
hleyp eg himinborinn
þangað sem Garðars
gamla ey
há úr hafi rís.
 
Langar mig þar
um ljósan tind
gullnu skýi skauta
og í djúpum
dal að kyssa
mundarfagra mey.
 
Svo á eg heiti
sem eg um heiminn fer
allan ýmsa vegu.
Næðingur kem eg að norðan,
næturkul að austan,
vorgola að sunnan,
vestan hafræna.
 
Skáldið:
Heyr þú, hafræna
in himinborna,
flýt þér Fróns úr dölum,
kysstu samt fyrst
og kossinn færðu
mér frá dalanna dætrum.

 

Samið árið 1832.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b III).
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847. [Fyrirsögn: „Í spánska sjónum“].


Til baka