Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Jan 16, 2020

Kvölddrykkjan


Gelur nú gleði
við glasmunna,
dunar fjöl und fæti gljáum,
gengur roka
með rokna blæstri
níðings nösum frá.
 
Brettar ro brýr,
bendist ofur mjög
kátur kúluvambi;
rymur rámur háls
af rembilæti,
það er kaupmanns kunn.
 
Strax er stafs vant
er af stað færist,
fara höndur í hlaði,
enni, það áðan
að ölbollum
laut, er leirugt allt.
 
Mælir þá munnur
þótt mál þvæli:
„Veit eg vínkaup
verst í heimi.
Gjalds er vant
við gleði óra –
skal það bændum
af baki fláð.
 
Endattu orð þín
né ummæli,
það er gömul
gróðaregla;
sú er og önnur
þótt örðug sé:
Stelattu svo
að stóru nemi.
 
Sefur samviska,
sæfðak hana
svo hún aldrei
um aldur vakni.
Sá var ormur
óduglegum
vörusölum
verst um gefinn.“
 
Baulaði þá
- brá upp grönum –
þjór þverhöfði
er á þambi stóð
um fætur hins
að foldu hrotinn.
 
„Orm þann! orm þann!
óduglegum
vörusölum
verst um gefinn,
samvisku seldak
mót silfri fyrr.
Henni varð ekki
varið betur.“


Samið á árunum 1826-1828.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b I).
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka