Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Jan 16, 2020

Möðruvallasteinhús


(í byggingu)

 

Vík hér að, vinur,
sem á vegi fer
og hygg á haglegt smíði,
þannig verður góðum
góðu bætt
vel umborið böl.
 
Gleymdar ro rústir
er ruku fyrr,
öllum sorgleg sjón,
þars við fjallbrún
ið fagurgjörva
mælir sig mannvirki.
 
Stattu steinhús,
stólpa heilli!
Þökk sé þeim er vel að vinnur!
Stattu vel steinhús,
og standi vel
gæfa þíns góða herra!
 
Hvur er sjón
er eg sjá þykjumst?
Manat engill
ofan farinn
grandi burt frá
garði snúa?


Samið árið 1828.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b I).
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka