Flýttu fjalla yfir brún
dagur þér, það er ei þörf á Kamtsjatka bíða!
Lengur eg ei ligg á dún
en læt nú strax fara’ að hringja til tíða.
Þá skalt þú ei sjá hvað er
heiðarleg hátíð sem halda ætla eg núna.
Það er æði asi’ á mér,
eg vil fljótt hafa messuna búna.
:,: Veislu síðan vind eg að,
vertu kominn hér um það
súpa virðist vera mál
vetrar umliðins burtfararskál. :,:
Sumardagurinn:
„Hygg að – haf þú kyrrt um þig –
senn kem eg sumarið sendur ykkur að boða.
Hátt á himinfólgnum stig
hleyp eg skrýddur í morgunsins roða.
Hulinn – það er himins ráð –
bind eg á baki þér bagga örlaga þungan.
Gata grjóti nokkru stráð
gjörir fótvissan vegfara ungan,
halt því kvíðlaus áfram enn!
Oft er jarðnesk gæfa tvenn,
saklaust auga svaf í værð,
syrgði andvaka á gullbeði flærð.
Halt því kvíðlaus áfram enn!“
Ó já, dagur! Komdu senn,
súpa virðist vera mál
vinar tryggasta hamingjuskál.
Samið árið 1828.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b I).
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.