Valstika

Kvæði samin 1838 - 1842

Jan 31, 2020

Alþing hið nýja


(1840)

Hörðum höndum
vinnur hölda kind
ár og eindaga;
siglir særokinn,
sólbitinn slær,
stjörnuskininn stritar.
 
Traustir skulu hornsteinar
hárra sala;
í kili skal kjörviður;
bóndi er bústólpi,
bú er landstólpi,
því skal hann virður vel.
 
Fríður foringi
stýri fræknu liði,
þá fylgir sverði sigur;
illu heilli
fer að orustu
sá er ræður heimskum her.
 
Sterkur fór um veg,
þá var steini þungum
lokuð leið fyrir;
ráð at hann kunni,
þó ríkur sé,
og hefðu þrír um þokað.
 
Bera bý
bagga skoplítinn
hvurt að húsi heim;
en þaðan koma ljós
hin logaskæru
á altari hins göfgva guðs.
 
Vissi það að fullu
vísir hinn stórráði.
Stóð hann upp af stóli,
studdist við gullsprota:
„Frelsi vil eg sæma
framgjarnan lýð,
ættstóran kynstaf
Ísafoldar.
 
Ríða skulu rekkar,
ráðum land byggja,
fólkdjarfir firðar
til fundar sækja,
snarorðir snillingar
að stefnu sitja;
þjóðkjörin prúðmenni
þingsteinum á.
 
Svo skal hinu unga
alþingi skipað
sem að sjálfir þeir
sér munu kjósa.
Gjöf hefi eg gefið,
gagni sú lengi
foldu og firðum
sem eg fremst þeim ann.“
 
Þögn varð á ráðstefnu,
þótt ríkur mæla,
fagureygur konungur
við fólkstjórum horfði;
stóð hann fyrir stóli,
studdist við gullsprota,
hvurgi getur tignarmann
tígulegri.
 
Sól skín á tinda.
Sofið hafa lengi
dróttir og dvalið
draumþingum á.
Vaki vaskir menn,
til vinnu kveður
giftusamur konungur
góða þegna.


Samið árið 1840.
Tvö eiginhandarrit eru til, annað er varðveitt á Landsbókasafni á sérstakri örk í handritasafni Jóns Sigurðssonar (JS 401 4to) en hitt er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (í sendibréfi til Konráðs Gíslasonar 2. ágúst 1841).
Frumprentun í: Fjölnir 6. ár, 1843.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka