Valstika

Kvæði samin 1838 - 1842

Jan 31, 2020

Bjarni Thorarensen


Skjótt hefir sól brugðið sumri,
því séð hef eg fljúga
fannhvíta svaninn úr sveitum
til sóllanda fegri;
sofinn er nú söngurinn ljúfi
í svölum fjalldölum,
grátþögull harmafugl hnípir
á húsgafli hvurjum.
 
Skjótt hefir guð brugðið gleði
góðvina þinna,
ástmögur Íslands hinn trausti
og ættjarðarblóminn!
Áður sat ítur með glöðum
og orðum vel skipti,
nú reikar harmur í húsum
og hryggð á þjóðbrautum.
 
Hlægir mig eitt það að áttu
því uglur ei fagna,
ellisár örninn að sæti
og á skyldi horfa
hrafnaþing kolsvart í holti
fyrir haukþing á bergi;
floginn ertu sæll til sóla
þá sortnar hið neðra.
 
Glaðir skulum allir að öllu
til átthaga vorra
horfa, þá héðan sá hverfur
oss hjarta stóð nærri;
veit eg þá heimtir sér hetju
úr harki veraldar
foringinn tignar, því fagna
fylkingar himna.
 
Kættir þú margan að mörgu
- svo minnst verður lengi –
þýðmennið, þrekmennið glaða
og þjóðskáldið góða!
Gleðji nú guð þig á hæðum
að góðfundum anda,
friði þig frelsarinn lýða.
Far nú vel, Bjarni!


Samið árið 1841
Þrjú eiginhandarrit til. Hið fyrsta er varðveitt á Þjóðminjasafni (Þjms. 12172), annað er varðveitt á Landsbókasafni (Lsb. 3402 4to) og það þriðja er varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn (Ny kgl. saml. 2004 fol. II).
Frumprentun í: Fjölnir 6. ár, 1843.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka