Valstika

Kvæði samin 1838 - 1842

Jan 31, 2020

Meyjarhjarta


Yndisbesta elskan mín,
ástum festa baugalín!
Hjartað góða þekki’ eg þitt,
það er ljóðaefnið mitt.
 
Það er hreint sem bregði blund
blómstur seint um morgunstund,
djúpt sem hafið heims um hring
heitri kafið tilfinning.
 
Það er gott, sem gaf það þér
guð, og vottinn hans það ber;
öngvum skugga á það slær,
auma huggað best það fær.
 
Það er hlýtt af ástaryl,
öllum blítt og mest í vil;
logann ól það elskunnar
undir skjóli miskunnar.
 
Það í heima horfir tvo,
huganum sveima leyfir svo;
það er gefið og þó sig á
. . .


Samið árið 1842.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 a II).
Frumprentun í: Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson. Jón Ólafsson og Jón Sigurðsson hafa séð um útgáfuna. Rvík 1913. [Fyrirsögn: „Rímnastælingar“].

Til baka