Fylgstu með okkur á Facebook

Arngerðarljóð

(P.L. Møller)
 • I
 • Fædd er eg þar sem fjallatindur
 • fólgið ylgott hreiður ber,
 • skjótt inn hvassi hvirfilvindur
 • hossaði mér í fangi sér;
 • breiðir og greiðir vængir verða,
 • væn úr hreiðri móðir sá
 • mig að fara minna ferða,
 • megni vinda ósamgerða
 • hátt yfir ský að heiði blá.
 •  
 • Dunaði loft um dökkar fjaðrir,
 • dimmum stormi fló eg gegn,
 • sólin há, og öngvir aðrir,
 • augna minna glæddi megn;
 • þekkti ég hættu ei né ótta,
 • æ á flugi glöð og hlý,
 • lítið hremmdi ég lamb á flótta,
 • lyfti því upp til sólargnótta,
 • drakk þar barkablóð úr því.
 •  
 • Einhvurn daginn ofan fló eg
 • illskuramma jörð að sjá;
 • eldur og hvellur – og svo dó eg,
 • allt varð dimmt, eg féll í dá;
 • lík hef eg verið lágt á jörðu,
 • legið í rauðu blóði þar;
 • vaknaði svo til harma hörðu
 • hjarta mitt er sundurmörðu,
 • hví dó eg ei til eilífðar!
 •  
 • Vaknaði ég í hörmum hörðum,
 • heil var sál en megni stytt;
 • hnjúkur minn, með hamragörðum!
 • hvar eru skýin, yndið mitt?
 • hvurt er horfin gleði geima,
 • góði fjaðurhamurinn?
 • Eg er svam um sólarheima,
 • sit nú, orðin stúlkufeima,
 • eins og gimbur grannvaxin.
 •  
 • Hrynur mér af höfði niður
 • hárið sítt og mjúkt og ljóst,
 • varla þolir veðrahviður
 • varið líni meyjarbrjóst;
 • fyrir háan himinboga
 • hefi ég fengið bæ og fjós;
 • fyrir bláa bergið troga-
 • búr, og dapran hlóðaloga
 • fyrir skærast skrugguljós.
 •  
 • II
 • Ó, að þeir fjötrar aftur brystu!
 • Ó, eg lifði þá sælutíð,
 • að mig vindarnir aftur hristu
 • eldinga gegnum dyn og stríð!
 • Ó, að flugvanar fjaðrir spryttu
 • fram um mjallhvíta öxl og háls.
 • Ó, að vindar mig aftur flyttu
 • upp yfir höfði glaðrar skyttu,
 • skundaði ég um skýin – frjáls!
 •  
 • Ónýtis til mín löngun leitar
 • ljósu heimkynni mínu ná,
 • vart yfir mínar varir heitar
 • veldur hún sér í skýin há;
 • flugsterka vængi fyrir, greiða,
 • fékk eg handleggi mjúka, smá,
 • sem megna’ eg ekki móti breiða
 • manni kærum og sælan – neyða
 • mínum að brenna munni á.
 •  
 • Frjálsa lofthafið, föðurbólið,
 • fríðan og breiðan himingeim,
 • misst hefi ég, og móðurhólið;
 • mannkinda hrakin niður í heim,
 • hlýt eg að sitja í svartri treyju
 • saman við smá og huglaus börn,
 • og kúra hér á kaldri eyju,
 • kalla mig allir fagra meyju,
 • og vita ekki’ að eg er örn.
Þýtt árið 1845.
Tvö eiginhandarrit eru til. Annað sem er uppkast er varðveitt á Landsbókasafni (ÍB 13 fol. Handritasafn Bókmenntafélagsins). Hitt sem er hreinrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 a II).
Frumprentun í: Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson. Jón Ólafsson og Jón Sigurðsson hafa séð um útgáfuna. Rvík 1913.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn