Fylgstu með okkur á Facebook
Laugardaginn 24. nóvember, 2007 - Menningarblað/Lesbók

Fjallkona Eggerts og fjölnismenn

 

Nýyrði Jónasar Í minningarstofa um Jónas Hallgrímsson á Hrauni í Öxnadal. Hin fjölmörgu nýyrði Jónasar hafa verið greipt í kassa í stofunni.
Nýyrði Jónasar Í minningarstofa um Jónas Hallgrímsson á Hrauni í Öxnadal. Hin fjölmörgu nýyrði Jónasar hafa verið greipt í kassa í stofunni.
Hvernig fléttast saga Fjölnis og Jónasar og sjálfstæðisbaráttunnar saman? Hér er sú saga rakin.

Eftir Matthías Johannessen

1Hvar skyldi vera að finna andann og orðfærið í þeirri rómantísku lýsingu á Íslandi sem blasir við í formála Fjölnis? Að sjálfsögðu í ljóðum Jónasar. Þar er hún bundin í stuðla, höfuðstafi og rím, ef svo ber undir.

Skoðum það nánar.

Fjölnir hefst á ljóði Jónasar, Ísland,1835. Þar er talað um farsældarfrón og hagsælda hrímhvíta móður. Þar er að vísu ekkert talað um að himinn sé heiður og fagur, heldur: heiður og blár. Þar er jafnframt talað um að fornmenn hafi reist sér byggðir og bú „í blómguðu dalanna skauti“. En það eru einmitt þessir dalir sem lýst er í formálanum; þessir grænu dalir.

Þá er talað um „skrautbúin skip fyrir landi“, þ.e. eigin skip, „færandi varninginn heim“.

Gunnarshólmi 1838 hefst með því að „gullrauðum loga glæsti seint af degi“ því að sólin skein yfir landi á sumarvegi. En í formálanum er minnt á, hvað sé blítt og fallegt í héruðunum „þegar (sólin) roðar á fjöll á sumardaga kvöldum“.

Umhverfi Gunnarshólma er þar sem byggðabýlin smáu eru dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir og eru þá komnir „hinir grænu dalir“ og ekki vantar þar lækina „himintæru“, eða „heiðavötnin bláu“, eins og segir í kvæðinu.

Sem sagt, hinn „sæli sveitarblómi“. Og frá Markarfljóti má sjá fullgróinn akur sem er fegurst engja val. Þar vantar ekki heldur blómin smáu því að við bleikan akur blikar jafnvel hin rjóða rós og minnir á hið rómantíska blóm sem er, hvað sem öðru líður, sömu ættar og lilja Sigurðar Breiðfjörðs; eða hið rómantíska bláa blóm. Og ekki vantar það heldur að fiskar vaki í öllum ám, og eru þá komnir laxarnir og silungarnir úr formálanum sem „leika þar með sporðaköstum“. Og fénaðurinn dreifir sér um græna haga og er þá enn kominn fénaðurinn úr formálanum sem unir sér í hlíðum dalanna, enda eru þær „kvikar af nautum og sauðum og hrossum“, eins og segir í formálanum.

Líklega er engin tilviljun að skógarnir eru skreyttir reynitrjám en þar er e.t.v. sótt í bréf sem Tómas Sæmundsson skrifar 30. janúar 1835, Úr bréfi frá Íslandi, og birt er í 1. árgangi Fjölnis. Þar er um að ræða frásögn af ferðalagi höfundar um landið og m.a. sagt frá trjárækt Þorláks í Skriðu og Baagöe verzlunarmanns í Húsavík. Þar segir svo: „Íslenzkar viðartegundir verða affarabeztar, bæði hér og hjá Þorláki í Skriðu: birki og víðir og einkanlega reynir. Í Húsavík er eitt reynitré, sem er orðið – ég held – 5 álnir að hæð, með mörgum kvistum og limum. Það er nú 20 ára gamalt og vex þó hraðast úr því.“

Það væri vart út í bláinn að ætla að reynitrén séu komin inn í ljóðið úr þessum pistli.

Kvæðinu lýkur svo með því að hinn öldnu sólroðnu fjöll horfa á árstrauminn harða granda fögrum dali, í stað þess náttúrulega að beizla þessa orku, sýna dug, manndóm og framkvæmdavilja og fara að eins og fyrir er mælt í formálanum, þegar talað er um að maðurinn geti jafnvel tamið yfirgang og ofurefli höfuðskepnanna. Og „leiðir þær til að fremja sinn vilja og flýta sínum fyrirtækjum“.


2 Formáli Fjölnis er einskonar stefnuyfirlýsing þeirra fjölnismanna, eða eins og þar segir „þannig höfum við, góðir landar! skýrt yður frá eðli og tilgangi þess tímarits, sem við í fyrra buðum yður til kaups, og höfum við að vísu tekizt of mikið í fang, til að geta leyst það bærilega af hendi, nema þér veitið okkur alla þá aðstoð og uppörvun, sem í yðar valdi stendur“.

Talað er sérstaklega um helztu áhugamál þeirra félaga, eða stefnuskráratriði, og lögð höfuðáherzla á það sem hefur drepið íslenzkt þjóðlíf í dróma, þ.e. hjátrú og deyfð.

En fyrsta atriðið sem þeir minnast á í formálanum er nytsemin. Allt sem í ritinu sé stuðli til einhvurra nota, en til þess útheimtist að það snerti líf og athafnir manna og reyni að brjóta þær skorður sem settar eru skynsamlegri framkvæmd og velvegnun eins og komizt er að orði, annað hvort af náttúrunni eða mannlegu félagi. Það er í þessum kafla sem þeir tala um „mótspyrnu náttúrunnar“, en ekkert lýsi betur „mannlegri hátign“ en sú staðreynd, að allir hlutir séu „komnir í mannsins þjónustu“. Hann temji jafnvel yfirgang og ofurefli höfuðskepnanna. „Verksmiðja, sem dálítill lækur, vindblær eða hitagufa kemur í hreyfingu, afkastar nú því sem þúsund hendur megnuðu ekki áður.“

Þannig fagna þeir því hvernig náttúran hefur verið beizluð í því skyni að efla hagsæld og framkvæmdavilja og fegra þar með mannlífið. Maðurinn sé orðinn „herra jarðarinnar“ og engum háður „nema sjálfum guði“, og þar næst mannlegu félagi, sem við eftir eðli okkar hljótum að stofna, „eigi maðurinn að verða það sem honum er ætlað“.

Það er athyglisvert að þeir nota orðið farsæld í næsta nágrenni við framfarir og virðast hafa þó nokkurt dálæti á því orði eins og sést af því að þeir tala um þá sem „vörðu rökkrunum til að færa í letur eða frásagnir hvað hinir höfðust að og hvað til tíðinda hafði gjörzt í landinu, eða hvað þeir höfðu frétt hjá utanferðamönnum, eða sjálfir reynt í útlöndum“.

„Og var sú dægradvöl hin færsælasta.“

Þessi dægradvöl hafi verið hin affaradrýgsta fyrir lönd og lýð því að úr henni urðu sögurnar, eins og komizt er að orði. Þær hafi veitt yndæla skemmtan og munu gera um margar aldir. „Þær hafa áunnið Íslendingum langæðan heiður hjá öllum betri þjóðum, og frelsað frá dauða eitthvurt gervilegasta mál. Hvur sem les íslensku sögurnar með athygli, í honum verður að kvikna brennandi ást á ættjörðu sinni, eða hann skilur þær ekki sem vera ber.“

Þannig er það engin tilviljun þegar Jónas Hallgrímsson opnar kvæði sitt, Ísland, með þessum orðum: Ísland! farsælda-frón og hagsælda hrímhvíta móðir! Við þennan sama tón kveður í Gunnarshólma sem birtist í 4. árgangi Fjölnis, 1838. En í þessum ljóðum báðum eru nokkrir þættir formálans færðir til bundins máls, eins og fyrr getur.

Það eru áreiðanlega margvíslegar ástæður fyrir því að Jónas laðaðist að Gunnari og hlíðinni hans og þeirri fagurfræðilegu athugasemd sem er óvenjuleg í fornsögum, þess efnis að hún sé fögur að sjá neðan úr Gunnarshólma, bleikir akrar og slegin tún. Í þessum orðum er ekki endilega lögð áherzla á náttúrufegurð, heldur hagnýta fegurð. Það er hin hagnýta fegurð bleikra akra, þ.e. kornyrkjunnar og hinna slegnu túna, sem Gunnar hrífst af. Það er hin hagnýta fegurð fjölnismannsins sem er þarna á ferð og upplifir söguna með skírskotun í þessa einstæðu athugasemd. Hún er ekki sízt einstæð vegna þess, hvernig höfundur Njálu leggur áherzlu á þessa nytjafegurð í umhverfinu og hvernig hún gerir það fallegt og eftirsóknarvert.

Akuryrkja er framtak, það eru einnig slegnu túnin, þótt þau hafi ekki verið nema litlir blettir eða bleðlar í umhverfinu. Þarna fer saman hagnýt náttúruskynjun fornaldar og hagsældarsjónarmið fjölnismannsins, Jónasar Hallgrímssonar. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því vegna þess, ekki sízt, að Jónas veit að það getur enginn lifað á náttúrufegurð einni saman, hvorki Gunnar á Hlíðarenda né samtíðarmenn hans sjálfs.

Gunnarshólmi er enginn tilviljun, heldur fullkomlega eðlilegt og úthugsað framhald fyrirmyndar sinnar og rómantískrar nytjastefnu í anda upplýsingar og Eggerts Ólafssonar.

Í formála Fjölnis segir m.a.: „Víst er um það: margt er annað sem minna mætti sérhvurn Íslending á þessa ást, ef hann rennir augum sínum yfir grænu dalina, með hlíðarnar kvikar af nautum og sauðum og hrossum og lítur niður í lækina, himintæra, – laxa og silunga leika þar með sporðaköstum. Eyjarnar virðast oss ekki leiðinlegar, þegar fiskurinn gengur upp í flæðarmál og fuglinn þekur sker og kletta. Himinninn er heiður og fagur, loftið hreint og heilnæmt. Og sólin, þegar hún roðar á fjöll á sumardaga kvöldum, en reykirnir leggja heim í loftið upp – hvað þá er blítt og fallegt í héruðunum!“

En síðan er bætt við að ef fornar bókmenntir íslenzkar hefðu ekki verið skráðar hefði orðið æði dauflegt um Norðurlönd og þá hefði orðið álíka skarð í sögu mannkynsins og ef stjörnufræðinginn vantaði leiðarstjörnuna.

Þá er á það minnt undir lok þessa kafla í formálanum að menn hafi sjálfir flutt vörur sínar á eigin skipum til ýmissa landa og tekið í staðinn ýmislegt sér til gagns og gamans. „Þess vegna lenti allur ágóði verzlunarinnar þar sem hann átti að lenda, inní landinu sjálfu, af því hvorki vantaði þrek né vilja til að vinna fyrir honum.“

Þetta síðasta atriði, frjáls verzlun og viðskipti sem undirstaða farsældar og velmegunar, er rauði þráðurinn í gegnum alla hugsjónabaráttu fjölnismanna og þannig voru þeir um allt slíkt algjörlega samstíga Jóni Sigurðssyni.


3 Eitt helzta áherzluatriði í formálanum er fegurðin. Hún er „sameinuð nytseminni – að svo miklu leyti sem það sem fagurt er ætíð er til nota, andlegra eða líkamlegra – eða þá til eflingar nytseminni“. En þó er fegurðin svo mikilvæg að hún er sjálfri sér nóg og allir menn ættu að girnast hana sjálfrar hennar vegna, eins og komizt er að orði.

Í framhaldi af því er lögð áherzla á tunguna og nauðsyn þess að halda henni hreinni og því einnig mikilvægt að hafa gætur á henni, hvort sem hún er skrifuð eða töluð. Hún sé forsenda frjálsræðis og kemur það heim og saman við afstöðu Jóns Sigurðssonar sem fjallaði m.a. um rétt íslenzkrar tungu, enda sé hún ein af helztu forsendum íslenzks sjálfstæðis. Hann heldur því meira að segja fram í Nýjum félagsritum að Íslendingar þurfi ekki að hlíta öðrum lögum en þeim sem eru á íslenzku,en þá hné tilhneigin til þess að nota dönsku í opinberu máli á Íslandi, eða móðurtungu konungs.

En á það var aldrei fallizt.

Það hefur alltaf verið Íslendingum keppikefli að varðveita og þróa eigin tungu, ekki sízt á dögum fjölnismanna,þegar horft var til þeirra tíma fyrr á öldum, þegar gullaldarritin voru samin á þeirri tungu sem varðveitzt hefur í gegnum tíðina og enn er brjóstvörn íslenzks sjálfstæðis, þótt hún eigi nú undir högg að sækja. Hún er ekki eins í tízku og áður og mætti segja að hún þurfi á öllu sína að halda nú þegar að henni er sótt úr öllum áttum, ekki sízt í sjónvarpi, og þá í skjóli aðgangsharðrar alþjóðahyggju, popps og peningastefnu sem metur veraldargæði umfram þau andlegu verðmæti sem hafa öllum stundum verið viðmiðun Íslendinga í þeirri frelsisbaráttu sem höfst með Jóni Sigurðssyni og fjölnismönnum.

Það var engin tilviljun að skáld á borð við Jónas Hallgrímsson var þar í fararbroddi.

Fjölnismenn leggja á það áherzlu í formálsorðum sínum að tungan sé einn ljósasti vottur um ágæti þjóðarinnar og höfuðeinkenni. Svo merkilegt sem það nú er, þá leggja þeir áherzlu á að engin þjóð verði fyrr til en hún tali mál út af fyrir sig, eins og þeir segja, og „deyi málin deyja líka þjóðirnar, eða verða að annarri þjóð“. Forsendur þess séu eymd og bágindi. Tungan og bókmenntirnar séu undirstaða þjóðarheiðurs Íslendinga. Ekkert sé því nauðsynlegra „en geyma og ávaxta þennan dýrmæta fjársjóð, sameign allra þeirra sem heitið geta Íslendingar“.

En eitthvað finnst þeim félögum skorta á fegurðartilfinningu Íslendinga sem sumum þyki í heldur daufara lagi. En það eru einkum dönskusletturnar sem fara fyrir brjóstið á þeim.

Þriðja höfuðatriðið sem fjölnismenn hyggjast leggja áherzlu á samkvæmt formálanum er sannleikurinn.


4 Fjölnir átti erfitt uppdráttar, á því er enginn vafi. Sumum var hann þó aufúsugestur. En þeir voru víst ekki margir miðað við hina. Ástæðurnar eru vafalaust ýmsar, en þó hygg ég að landsmenn hafi ekki verið ginnkeyptir fyrir því að vera minntir á niðurlægingu þjóðarinnar með þeim hætti sem fjölnismönnum var eiginlegt. Þeir létu gagnrýnina dynja á landanum og hlífðu engum. Í formálanum töluðu þeir jafnvel um að Íslendingar væru úrættir miðað við forfeðurna, þótt þjóðinni hafi farið fram í sumu eftir því sem tíminn „gaf henni nýjar bendingar“. Viljabrestur hái þjóðinni, áræðisleysi og einnig vankunnátta. Þeir segja það hljóti að vera vilji og löngun Íslendinga að brjóta skarð í þessar stíflur og veita fram lífsstraumi þjóðarinnar, í orði eða verki, eftir sínum kröftum og kringumstæðum, eins og komizt er að orði.

Hitt er þá einnig jafnvíst að almenningi hefur ekki hugnazt allt efni ritsins. Það gengur þvert á tízkustrauma, ekki sízt með afstöðu sinni til rímna sem voru einskonar dægurlög þess tíma. Þær voru jafnvinsæl og dægurlög svokölluð nú á dögum. Rímurnar voru almenningseign, en fjölnismenn stefndu á hærra plan. En þeir höfðu ekki alltaf erindi sem erfiði. Það má t.a.m. marka af boðsbréfi sem lesið var upp að Staðarbakka, en skrifað í Kaupmannahöfn 1. marz 1834 og undirritað af Brynjólfi Péturssyni, Konráði Gíslasyni og Jónasi Hallgrímssyni. Bréf þetta hefur varðveizt með þessari athugasemd: „Upplesið við Staðarbakka – og Efra Núps-kyrkjur; enn feck nejtandi Svar hjá sérhverjum, – vitnar E. Bjarnason.“ (Þ.e. Eiríkur Bjarnason frá Djúpadal, prestur á Staðarbakka 1826-1843.) Sem sagt enginn kaupandi að ritinu! En betur gekk í Húsavík eins og fram kemur í fyrrnefndum ferðapistli þar sem minnzt er á Baagöe, verzlunarmann í Húsavík, sem bjó „á hinum kaldasta útkjálka landsins“, útlendur maður sem vel hefur unað hag sínum á Íslandi og telur sig hálfan Íslending, enda hafði hann dvalizt hér á landi í 30 ár. Í pistlinum segir að hann þekki landið vel og þá einnig landsmenn og sé vel þokkaður af öllum. Fyrirtæki hans sýni að hann láti sér ekki miður hugað um framfarir landsins sem góður Íslendingur. Og svo kemur þessi setning: „Við vitum allir að enginn verzlunarmaður hefur betur og skilvíslegar starfað í bókasölum fyrir félag vort en hann.“

Þannig hefur þessi útlendi maður átt erindi sem erfiði fyrir fjölnismenn þar nyrðra.

Fjölnismenn héldu því fram að mikil nauðsyn væri á slíku riti, ekki sízt vegna þess að þau væru rödd tímans. Þeir minnast með ánægju tímarits Lærdómslistafélagsins og hins mikla brautryðjandastarfs Jóns Eiríkssonar, segja að rit hans sem kom út í 15 bindum 1780-95 sé enn mikilvægt, hálfri öld síðar; það hafi verið vel skrifað með köflum en dönskuslettur varpað á það nokkrum skugga. Tímarit þetta var eitt hið glæsilegasta sem gefið var út í norðurálfu, og áreiðanlega það tímarit sem mest sópaði að á Norðurlöndum á þeim árum. Má fullyrða að þessu riti hafi ekki verið sýndur sá sómi sem það á skilið, svo mikilsvert sem það var í menningarsögu okkar og samtíðarsögu sinni.

Fjölnismenn lögðu áherzlu á fjölbreytni tímarits þeirra, eða afbreytingu eins og þeir komust sjálfir að orði. En það voru ekki allir þeirrar skoðunar að efnið gæti orðið almenningseign. Í öðrum árgangi Fjölnis, 1836, er grein sem heitir Úr bréfi af Austfjörðum. Þar er minnzt á ævintýrið af Eggerti glóa og sagt það sé „til lítils handa flestum Íslendingum“. Þeir hafi varla mikinn áhuga á slíku efni og því síður gagn. „Að minnsta kosti hef ég heyrt marga ámæla, og hafa óbeit á þess konar skröksögum, sem þeir vita ekki þýðinguna í. Snotur kvæði, sennilegar sögur og þvíumlíkt, held ég væri betur við alþýðugeð, og gjörðu meiri not.“ Það sé nauðsynlegt að þekkja matinn frá moðinu.

Þessu svara fjölnismenn og segja að það sé undarlegt hvað mörgum Íslendingum þyki lítið koma til sögunnar af Eggert glóa. Því verði að vísu ekki komið við þessu sinni að sýna framá, hvílíkt snilldarverk hún sé og í hverju fegurð hennar sé fólgin, en þess væri óskandi að einhver Íslendingur yrði til að semja slíkt ævintýri því þá væri nóg að snúa því á önnur mál til þess að allar þjóðir í norðurálfunni segðu við sjálfa sig: Það er óhætt að telja þennan Íslending með beztu skáldum á þessari öld(!)

En sem sagt, marga lesendur skortir augsýnilega estetískan skilning á því sem Jónas og þeir félagar eru að reyna að koma til skila og að því leyti er lítill munur á samtíma þeirra og þeirri öld sem við nú lifum.

Það er svo í næsta hefti, eða 4. árgangi Fjölnis, 1838, sem þeir félagar taka þetta efni til meðferðar í formála sem heitir Fjölnir, sömu greininni og þeir vega hvað harkalegast að rímunum sem þeir kalla leirburð en þær hafi aflagað tilfinningar Íslendinga og álit þeirra á eðli hins rétta skáldskapar, eins og komizt er að orði. En þó reynist það vonandi ekki sannmæli sem sagt hafi verið að skáldaandi og fegurðartilfinning sé sjaldgæfust á Íslandi. Þá segir: „En hvað sem því líður, mun það ekki sízt hafa spillt fyrir Eggerti glóa – eins og nú var sagt – að fáir hafa skilið ævintýrið, og tilgang þess, og hvað það hefir sér til ágætis. Við ætlum ekki, að það sé óbrigðult einkenni góðs skáldskapar, að hann leiði fyrir sjónir „framtakssemi og kænsku“, heldur hitt, að hann samsvari kröfum skáldlegrar fegurðar, og sannleikans og siðseminnar, að því leyti, sem fegurðin í snilldarverkum þarf ætíð að styðjast við það hvoru tveggja. En það veitti ekki af heilli ritgjörð, til að útlista, í hverju fegurð og snilld alls skáldskapar sé fólgin. En hér nægir að vikið sé á þeim til frekari íhugunar, er vita vilja hið sanna í þessum efnum: að skáldin geta tekið sér til yrkisefnis hvurt sem þau vilja – hinn sýnilega heim eða hinn ósýnilega, hinn ytra eður hinn innra, hinn líkamlega eða hinn andlega. Með þessu móti er allur skáldskapur undir kominn, að efnið er annaðhvurt tekið að utan eður að innan, af hinu einstaka, sem fyrir sjónir ber, eður hinum almennu lögunum sem það allt fer eftir.“

Hér er átt við efnið í ævintýrinu um Eggert glóa, því að það gerist á mörkum raunveruleikans og þess sýndarveruleika sem slík ævintýri eru venjulega sprottin úr. Fjölnismenn verja sig m.a. með því að skáldið geti annaðhvort farið eftir frásögnum sem til eru um háttu manna á einhverjum tilteknum tíma, eins og þeir komast að orði, hvort sem þær eru sannar eða ekki, og sniðið úr þeim efni, sögu eða ævintýri eins og honum líkar. Skáldinu hafi því betur tekizt sem saga hans er líkari þeim tímum, þegar hún átti að gerast og þeim mönnum sem um er fjallað, séu þeir af frásögum kunnir eða að öðrum kosti því, hvernig fólk mundi hafa hagað sér í hugrenningum, orðum og gjörðum, vel eða illa. Þeir sem lesi þannig sögu sjái þá tímana í huga sínum sem hún segi frá og hún verði þegar litið sé til háttsemi þeirra tíma, eins líkleg og þó sönn væri, þó að hún sé einber samsetningur. En þó sé hún ekki lygi heldur, þegar hún fer svo nærri því sem hún átti að leiða í ljós. „Hún er sönn að því leyti, sem skáldskapurinn er sannur; en hann er ætíð fólginn í því, að smíða af hugviti og ímyndunarafli, og í því er hann frábrugðinn sagnfræðinni, er aldrei má herma annað en það, er nóg eru rök til, að í raun og veru hafi við borið.“

Sagan af Eggerti glóa er eftir Tieck og fjallar um Eggert riddara og Bertu konu hans. Hún segir frá ævintýrum æsku sinnar, þegar hún villtist og rakst á kerlingu sem tók ástfóstri við hana, en af sögunni er augljóst að þar er örlaganornin komin til skjalanna og breytir ævintýrinu í eins konar táknlega sögu sem fjölnismenn hafa talið, að almenningur hafi getað dregið lærdóma af. Þá koma ævintýraminni um fugl og hund, en boðskapurinn er mæltur af vörum kerlingar: Ef þú heldur svona áfram mun þér ætíð vegna vel, en aldrei verður það að góðu, ef gengið er af réttum vegi. Hegningin kemur eftirá þó hún stundum komi seint. Og það var eins og við manninn mælt, þegar stúlkan gekk af hinum rétta vegi og breytti ranglega fór að síga á ógæfuhliðina og endaði að sjálfsögðu með ósköpum. Töfraveröldin breyttist í grimman veruleika.

Ég skil þetta svo að það muni einnig gerast í frelsisbaráttu Íslendinga, ef þeir gangi ekki til góðs,svo að vitnað sé í ljóðlínur Jónasar.

Í bréfinu af Austurlandi er dálítil hugleiðing sem á ekki síður við okkar tíma en umhverfi Fjölnis fyrir miðja nítjándu öld og enginn vafi á því að margur nú um stundir hugsar með svipuðum hætti um það umhverfi íslenzkrar menningar sem við nú búum við, hlutfallaleysið í verðmætamati og ágjöf alls kyns tízkuróts. Í bréfinu segir: „Að þessu sé orðið svona varið hjá helzt til mörgum löndum okkar, sjáum við á því, hvernig þeir taka allt nærri því með sömu þökkum. Rímnabagl vesælla leirskálda, t.a.m. Sigurðar „Breiðfjörðs“, bókin með Láka-brag og Einbúaljóðum (Roðhattsbragurinn hefði átt að vera með í ofanálag!) – þetta er keypt eins ljúflega og miklu meir tíðkað en Paradísar-missir og Messía-ljóð, svo hver „sultarkogni“ er farinn að geta haft sér það til atvinnu að láta prenta alls konar bull, sem (eins og sr. Tómas hefur með sanni sagt um íslenzkar ritgjörðir á einu tímabili) ekki er til annars en sýna seinna meir „smekkleysi“ vorra daga.“


5 En hvaða tengsl skyldu vera milli formála Fjölnis og ljóða Jónasar annars vegar og Eggerts Ólafssonar og verka hans hins vegar? Þegar skoðað er í saumana á verkum Eggerts kemur í ljós að þessi tengsl eru miklu meiri en virðist í fljótu bragði. Þau birtast á víð og dreif í kvæðum hans 1832, en Tómas Sæmundsson gaf þau út og þau höfðu án efa feiknamikil áhrif á afstöðu fjölnismanna, ekki sízt Jónasar.

Í formálanum fyrir bókinni fjallar Eggert Ólafsson um skáldskap með þeim hætti sem Jónas Hallgrímsson hefði að mestu getað tekið undir, en þar segir hann m.a. að „algjört skáld“ hafi þessar höfuðgáfur til að bera, eins og hann kemst að orði: hagmælsku, andríki og smekk. Í smekknum sé m.a. fólgin viðkvæm nærfærni og þegar allar fyrrnefndar dyggðir séu saman komnar á einum stað, „gætu menn jafnvel (með kveðskap) villt tunglið burt af himninum“ og er þetta tilvitnun í latneskan texta.

Það er augljóst af formála Eggerts að þar heldur um penna sérstæður hugsuður og hámenntaður og miklu betur að sér en ráða mætti af kveðskapnum. Hann notar ljóðlistina augsýnilega til þess að koma hugsjónum sínum á framfæri fremur en hann treysti sér til að uppfylla fyrrnefnd þrjú atriði höfuðgáfunnar. Í höndum hans verður skáldskapurinn einskonar mælskulist þar sem hvert einstakt erindi eða kvæði er ritgerð út af fyrir sig og þá um þau hugðarefni sem stóðu Eggerti Ólafssyni næst. Hann segir enda sjálfur að skáldskaparkonstin sé „ei annað en sú efsta trappa mælskukonstarinnar“, og tilgangur og nytsemi skálda og mælindismanna á að vera allur hinn sami, sem sé: að hræra mannleg hjörtu og draga þau til samsýnis sér. Hann segir um eigin kvæði að þar sé að sönnu haldið við upptekna bragarhætti „en hvar dýrleikur sést innan í hendingunum, er hann sjaldnast fastur eða jafn og verða þeir að kalla það lýti, sem vilja; sama er að segja um nýja bragarháttu þá er hér hittast, þeir eru sumir nógu dýrir; en þó hefir diktarinn ei altíð bundið sig við þann dýrleik, heldur gefið sér frelsi til að koma viðkvæmar í ljós sinni meiningu“.

Það er nákvæmlega ætlunarverk Eggerts og það vita fjölnismenn og taka hann á orðinu, ekki sízt Jónas Hallgrímsson sem hefði gert strangari kröfur til fagurfræðilegri vinnubragða, ef einhver annar hefði átt í hlut en Eggert Ólafsson.

En svo við snúum okkur að fyrrnefndri spurningu er tilvalið að athuga kvæði Eggerts Ísland þar sem fjallkonan segir sögu sína og kemur víða við, en með hverju erindi eru skýringar og er margt á þeim að græða. Í öðru erindi annars kafla segir Ísland „frá sínu barnaláni, mannkostum og atgjörvi hinna fyrstu Íslendinga“.

Það er hörð áminning til samtímans, þegar á það er minnt að fornmenn hafi ekki skemmt landið með óhófi, ránum, okri eða óstjórn:


Sat eg sæl í búi


svona langa tíð,

góðra barna grúi

mig gladdi fyrr og síð,

þau í kjöltu léku ljóst,

og með skammti sugu svo

sinnar móður brjóst.

Þá heldur fjallkonan áfram að rekja sögu landsins í þessu formi og leggur ekki sízt áherzlu á verzlunarfrelsi og slær þannig tóninn sem verður einskonar undirtónn eða leiðsögustef alls þess sem fjölnismenn hugsuðu og boðuðu. Í VI. kafla 40. erindis kemst skáldið svo að orði:


En þótt Íslendingar


ættu fæstir skip,

kaupmanns artin kringa

kunni það í svip

upp að bæta frjáls; eg finn

þar sem gjaldið kemst um kring

kvíslast ábatinn.

Í skýringum sínum segir skáldið að hér sé fjallað um lag til að verzla, þ.e. frjálsa kauphöndlan eins og hann kemst að orði: „í leyfi og fyrir utan stóra tolla, þyngsli eða álögur. Og þar í sé helzt fólgin betrun kaupskapar, bjargræðis og fjárgróða í einu landi, að lausir fémunir og afgangs ágóði hafist jafnan í kaupskiptum til ávaxtar.“

Þessi orð bergmála í formála Fjölnis. Féð gengur manna á milli í landinu, en hitt sé verra, þegar allt fer á eina hönd sem margir þurfa að lifa af, en þá verði ekki eins miklu eytt „inn í landið og hinir allir, þá skerðist almennings gagn og höndlan minnkar að þeim mun, en féð er ávaxtalaust“.

Í skýringum við erindi um Guðbrand biskup, þ.e. 44. erindi þessa sama kafla, er því jafnvel haldið fram að hann hafi með prentverki sínu og þýðingum prýtt efni lands og almennings, eins og komizt er að orði, „því auk styrkingar og viðhalds kristindómsins, veldur það peninga hræringu og margri annarri nytsemi“. Jafnvel þýðing Biblíunnar eykur kaupskap og nytsemi í landinu og erum við þá komin að kjarnanum í formála Fjölnis, en þeir félagar lögðu höfuðáherzlu á guðrækni, eins og Jónas gerir í verkum sínum, bæði ljóðum og óbundnu máli, þar sem hann kallar heiminn m.a. hugarveröld guðs.

Sumir telja að Jónas hafi verið panteisti og trúað á guðdóminn í náttúrunni í staðinn fyrir það, að hann taldi náttúruna bera vott um guðdóm föðurins sem hann nefndi svo í Hulduljóðum og þá að fyrirsögn Krists sjálfs: Faðir og vinur alls, sem er leggur hann Eggerti Ólafssyni í munn og biður hann um að annast þennan græna reit sem við köllum Ísland, en hann nefnir hólmann í niðurlagsorðum Gunnarshólma og bætir við, að honum hlífi hulinn verndarkraftur sem er sterkari og meiri en guðlegt afl náttúrunnar.

Trúarafstaða þeirra fjölnismanna birtist m.a. í því að þeir snöruðu hugvekjum Mynsters byskups á íslenzku svo að landinn fengi þann rétta tón í guðstrú sína og tilbeiðslu. Mynster sem lézt um miðja öldina var danskur kirkjuhöfðingi og byskup á Sjálandi frá 1834. Hann naut virðingar sem kennimaður og voru hugleiðingar hans gefnar út á íslenzku 1845, eða sama ár og Jónas lézt. Hann hélt fram hlut ríkiskirkjunnar dönsku sem einnig var kirkja Íslands og lenti í andstöðu við Kierkegaard og Grundtvig, en fjölnismenn létu sér fátt um finnast og átti byskup augsýnilega hug þessara íslenzku frelsissinna sem kunnu vel að meta kenninguna og fagurlega stílaðar hugmyndir hans.

Tómas Sæmundsson var guðfræðimenntaður og sóknarprestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð frá 1835 til dauðadags 1841. Hann gaf einn út 5. árgang Fjölnis,en þegar hann lézt skrifaði Jónas minningargrein um hann í næsta árgang ritsins, þar sem hann segir m.a. að Tómas hafi verið studdur kristilegu trúartrausti og „að með þessum manni er oss horfið hið fegursta dæmi framkvæmdar og ættjarðarástar“.

Í kjölfar greinarinnar eru svo birt mörg kvæði eftir Jónas og þar kemur faðir alls, eða guð, enn við sögu,eins og víðar, m.a. í erfiljóði skáldsins um Tómas sem síðar birtist, þar sem drottins föðurhönd vísar leiðina „meira að starfa guðs um geim“.

En aftur að Eggerti:

Í skýringum við 49. erindi VIII kafla fyrrnefnds kvæðis talar skáldið um manndáðina, að hún hafi verið miklu minni en áður og sé það sumpart af því að efni landsins hafi verið til þurrðar gengin. Í næsta kafla er minnt á, hvernig árnar uxu úr farvegum sínum, „urðu aflagaðar og útvíðkaðar“ og skemmdu landið.

Öll minna þessi atriði á ljóð Jónasar sem talar um manndáðina í Íslandi: frelsið og manndáðin bezt. En í Gunnarshólma er undir lokin minnt á hvernig „ólgandi Þverá“ veltur yfir sanda þar sem áður voru blómlegir akrar, eða eins og Eggert Ólafsson kemst að orði:


Skemmt er skrautið græna,


skorin helftin frá,

krystals verkið væna

verpir blettum á,

trefjur einar eftir sé;

hylja tötrar holdið mitt,

hrúður og óværi.

(54. erindi)

Nokkru síðar, eða í 56. og 57. erindi, víkur Eggert Ólafsson að uppblæstri og byggðaeyðingu og gleymir þá ekki að geta sérstaklega eyrarrósarinnar og melsólar sem sé hin fegursta jurt, lík sóleyju, hún vaxi víða í melum á Vestfjörðum með hágulu blómstri sem bregður til græns papagóa litar, eins og skáldið segir í skýringunum, en áherzlan er þó fremur á eyrarrósina sem skáldið segir að sé „einhver blómlegust jurt hér á landi, hún vex sums staðar í dala ár-eyrum, með fagurrauðu blómstri og bregður til fjólu-bláma“, og erum við þá farin að nálgast uppáhald Sigurðar Breiðfjörðs í flóru Íslands:


Fegurst blómstrin bera


berar flár og hraun;

undan fossi og frera

færa sætan daun:

eyrar-rósin kennir kurt;

mela-sólin eins ber af

engja' og túna jurt.

Í þarnæsta erindi er minnt á hvernig sáðmennirnir sofa á verðinum og þá er komið að þeirri deyfð sem minnzt er á í formála Fjölnis, því að Eggert segir í skýringum sínum að „ef þau lönd, sem bezt eru ræktuð, gefa daufa menn í dyggðum og góðri framkvæmd, eins þá sem aðra eiga að siða, þá er ei undur, þó hrjóstrugt og óræktað land gæfi ei af sér annað en tómt afhrak af mönnum“, en hann bætir þó við: en hér má þó miðla málum.

Ekki er út í hött að láta sér til hugar koma hvaðan sú rauða rós sem blikar við bleikan akur í Gunnarshólma er í raun og veru ættuð.

Þá er enn í X kafla minnt á siglingar fornmanna og veðraskilin í þeim efnum sem hafi leitt til örbirgðar (76. erindi), en þó einkum lögð áherzla á afturhaldssemi og viðnám gegn því sem nytsamlegt er og gamalt, en einnig því sem nýtt er og nytsamlegt:


Óþjálga' eins og drumba


ætla' eg suma menn,

er með þrái þumba

þvert til skaðans; en

gott ei vilja nokkuð nýtt;

glópskan þykir gamla bezt,

gleymt er hið forna nýtt,

en í skýringunum segir skáldið að nýtt merki: nýkomið, þótt gott sé og þarflegt og ennfremur nytsamlegir hlutir, sem fornmenn kunnu og brúkuðu, t.d. bústjórn, matarskammtur, húsastarf, vatnsleiðingar á túnum, akuryrkja, garðlag, vegabætur, karlmanna íþróttir fyrir líkamann, þarflegar kvenna handyrðir, svo sem dýrir saumar og vefnaður, og margt fleira, sem menn ei nú kunna. Og nokkru síðar er lögð áherzla á að nýta það allt og koma því í verk sem mönnum „sýnist gagnlegt“.

Allt bergmálar þetta í formála Fjölnis.

Í lokaerindi þessa sögulega kvæðis Eggerts Ólafssonar væntir fjallkonan þess að landið vakni af löngum svefni, svo að hún geti kastað af sér ellibelgnum, brennt gamlan haminn og vaknað til nýrrar aldar „við svo góðan draum“. Hugsjónir fjölnismanna eiga rætur í þessum vonum, þessari hvatningu og þeim veruleika sem vex af þessum draumi inn í nýja framtíð. Eggert sem var fyrst og síðast upplýsingamaður vill bæta náttúruvísindum við sem undirstöðu íslenzkrar menningar og hefur það áreiðanlega fallið vel að hugmyndum Jónasar og náttúrufræðiáhuga hans. Og þá ekki síður sú niðurstaða Eggerts að „guðsnáðarsól er ekki enn til viðar gengin heldur uppljómar hún og vermir alla náttúruna“.


6 Með nokkrum sanni má segja, að Fjölnir hafi dáið með Jónasi Hallgrímssyni. Tveimur árum eftir andlát hans, 1847, eru birt um hann minningarorð eftir Konráð Gíslason, einn fjögurra fjölnismanna, en hann var málvísindamaður og orðabókarhöfundur í Kaupmannahöfn, og er þar fjallað um menntun hans og áhugamál og fullyrt að Jónas hafi alla jafna haft „eitthvað fallegt fyrir stafni, sem átti við eðli hans“, en aðaláhugamál hans alla tíð var Ísland, arfleifð þess, menning og náttúra, enda vann hann lengstum að hinni merku Íslandslýsingu sinni og fór nánast um allt landið, eða eins og höfundur kemst að orði, að „...varla mun neinn maður, síðan Eggert Ólafsson var á dögum, hafa haft eins jafna og margháttaða þekkingu á Íslandi“.

Í þessum síðasta árgangi Fjölnis eru einnig nokkur mikilvæg verk eftir skáldið, svo og erfiljóð um hann þar sem þess er getið að drottinn vilji ekki skapa skáldin handa öngum, svo að eitthvað hefur þeim Konráði þótt skorta á ljóðræna hlust þjóðarinnar um þær mundir og virðist þessi skortur hafa gengið í erfðir, ef litið er yfir græna reitinn nú um stundir.

En þar segir einnig:


Þegar hann hrærði hörpustrenginn sæta,


hlýddum vjer til, en eptirtektarlaust,

vesalir menn, er gleymdum þess að gæta,

að guð er sá, sem talar skáldsins raust,

hvort sem hann vill oss gleðja eða græta.

Þannig lauk þessum merka og mikilvæga þætti sjálfstæðisbaráttunnar með því að málgagn fjölnismanna hætti að koma út, þetta einstæða ársrit sem hafði verið rödd tímans og annað auga þjóðarinnar, svo að vitnað sé í grein eftir Tómas Sæmundsson um bækur og Fjölnis-formálann sjálfan.

Til fróðleiks
  • Jónas Hallgrímsson og stjörnufræðin
  • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
  • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
  • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
  • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
  • Enn finnast bréf Jónasar
  • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
  • Jarðeldasaga Íslands
  • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn