Fylgstu með okkur á Facebook

Guðmundur kaupmaður Guðmundsson

 • „Leiður er mér sjávar sorti
 • og sólgáruð bára“
 • síðan barma brutu
 • blíðan mér frá síðu.
 • Algildum hafa öldur
 • ótrúar gröf búið;
 • grimmar djúpt í dimmum
 • dauðasal hann falið.
 •  
 • „Eigi mega á ægi
 • ógrátandi líta“
 • móðir, systur, síðan
 • sjá ei bróður góðan;
 • löngum sjá þær lengi
 • lauguðum sjónbaugum
 • öldur á, og leita
 • að þeim er nam staðar.
 •  
 • Einatt úti sýnist
 • undir land á stundum
 • seglum skautuð sigla
 • sæhind þægum vindi.
 • Það er ei hann, sem Fanna
 • hallar leið að fjalli;
 • þoka er það sem rýkur
 • þýð á mari víðum.
 •  
 • „Sól gengur síð undir múla!
 • svo langar þig þangað“
 • ein sem ástin besta
 • ól á föðurbóli.
 • Hver veit hve langt leita
 • leiðar þarf nú arfi
 • hrelldrar móður, að kveldi
 • hennar í faðm renna?
 •  
 • Varð ekki í grænum garði
 • grafar auðið þeim dauða
 • greip á dökku djúpi
 • drómi, lífs úr blóma.
 • Blæju bláa ægir
 • breiddi yfir þig leiddan,
 • frændi! fyrr sem undir
 • fold og seimi heima.
 •  
 • Seggir af harmi hyggja
 • helst eiga, sem mega;
 • stutta stund að létta
 • starfa sinna. En minnast
 • eg með ástartrega
 • ætíð hlýt – því bætist
 • aldrei það eg þolda-
 • þín, minn bróðir góður!
Samið árið 1842.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 a II).
Frumprentun í: Skírnir, árið 1843.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn