Fylgstu með okkur á Facebook

Kveðja Íslendinga til séra Þorgeirs Guðmundssonar

 • Nú er vetur úr bæ,
 • rann í sefgrænan sæ
 • og þar sefur í djúpinu væra;
 • en sumarið blítt
 • kemur fagurt og frítt
 • meður fjörgjafarljósinu skæra.
 •  
 • Brunar kjöll yfir sund,
 • flýgur fákur um grund,
 • kemur fugl heim úr suðrinu heita.
 • Nú er vetur úr bæ,
 • rann í sefgrænan sæ,
 • nú er sumrinu fögnuð að veita.
 •  
 • Verum röskir í dag,
 • kveðum víkingalag
 • svo menn viti vér ætlum að berjast;
 • herjum flöskurnar á
 • og það fari sem má
 • og þeir falli sem ná ei að verjast.
 •  
 • Verum glaðir í dag
 • er í vinar vors hag
 • hefir veröldin maklega gengið.
 • Senn er Glólundur grænn,
 • senn er Grashagi vænn,
 • þar mun gaman að reika’ yfir engið.
 •  
 • Þó vér skiljum um stund,
 • þá mun fagnaðarfund
 • okkur fljótt bera aftur að höndum;
 • því að hjólið fer ótt,
 • því að fleyið er fljótt
 • er oss flytur að Glólundar ströndum.
 •  
 • Þegar lauf skrýðir björk,
 • þegar ljósgul um mörk
 • rennur lifandi kornstanga móða,
 • þá mun farið af stað,
 • þá mun þeyst heim í hlað
 • til hans Þorgeirs í lundinum góða.
 •  
 • Þá mun sjón verða’ að sjá
 • hvurnig hirðinum hjá
 • þar í haganum sauða þrífst fjöldinn;
 • þá mun riðið í lund
 • til að stytta sér stund,
 • þá mun staupunum glamrað á kvöldin.
 •  
 • Farðu glaður af stað,
 • leiði gæfan í hlað
 • þig á Glólundar hagsæla inni.
 • Vertu, Þorgeir vor, sæll!
 • vertu, vinur vor, sæll!
 • þetta veri vort skilnaðarminni.
 •  
 • Hafðu þökk fyrir allt
 • er þú varst oss ávallt!
 • nú mun vandhæfi slíkan að finna.
 • Veiti hamingjan þér
 • það sem hugsum nú vér,
 • góði hugljúfinn bræðranna þinna!
Samið árið 1839.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Sérprent fyrir samsæti 26. apríl 1839, sem haldið var til heiðurs séra Þorgeiri Guðmundssyni.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn