Fylgstu með okkur á Facebook

Magnúsarkviða

(tvítugur flokkur)
 • Úti sat und hvítum
 • alda faldi
 • fjallkonan snjalla
 • fögur ofan lög;
 • sá hún um bláan
 • boga loga
 • ljósin öll er lýsa
 • leið um næturskeið.
 •  
 • Sofinn var þá fífill
 • fagur í haga,
 • mús undir mosa,
 • már á báru;
 • blæju yfir bæ
 • búanda lúins
 • dimmra drauma
 • dró nótt úr sjó.
 •  
 • Hvur er sá er snörum
 • hugaraugum
 • skoðar lífsleiðir,
 • lýð allan og tíð;
 • vakir og vakir,
 • vinnu sinnir
 • hrímkalda grímu
 • sem hagbjartan dag?
 •  
 • Fár gat svo fyrri
 • Frónbyggja sjón
 • glætt að þeir mættu
 • geima skoða heima;
 • fár gat svo fyrri
 • fornra norna
 • haftböndum sviptan
 • huga sent á flug.
 •  
 • Fár gat svo fyrri
 • fullhugaður bugað
 • illa villu,
 • aldaspellis gjald.
 • Legið hefir lygi
 • og láðbyggja ráð
 • allavega spjallað,
 • eitri blend í sveitum.
 •  
 • Fár gat svo fyrri
 • fjandann anda
 • lestan og lostið
 • lygi brott úr vígi;
 • hrakti sá er vakti
 • meðan höldafjöld
 • megindofin sefur
 • marghöfðaðan varg.
 •  
 • Úti sat und hvítum
 • alda faldi
 • fjallkonan snjalla
 • fögur ofan lög;
 • sá hún þar vá
 • að vættum hættum
 • íturdjarfur arfi
 • Ólafs und sólu.
 •  
 • Róma varð á þröm,
 • ruddist að studdri,
 • fólkumdjarfur, fylking
 • flokks óþokkans;
 • hugði sá er dugði
 • fyrir hamar fram
 • alla saman fella
 • ókind á sjó.
 •  
 • Hvargi hugðist varga
 • viðsnúið lið
 • berast láta fyrir
 • bjargarið niður;
 • hremmdu þá og klemmdu,
 • er hrekjast tóku,
 • stoðir sem að stóðu
 • í styrku landvirki.
 •  
 • Hvöt var aðsókn hetju,
 • harðnar enn senna,
 • ógurlegum augum
 • á skaut hann þá.
 • Stóðu þeir við stoðir,
 • stökk ei né hrökk,
 • stærri jafnt og smærri
 • strjúka vill ei púki.
 •  
 • Magnús gekk af megni
 • und’ merki, þjóðsterkur
 • láðvörður lýða,
 • ljóss, sér til hróss;
 • skoðar hann í hraða
 • högum augum
 • tjón allt og lán
 • tíguglegs sigurs.
 •  
 • Ríður hinn ráðgóði
 • á regin lygnmegins,
 • heggur nú og leggur,
 • hrekur allt og rekur;
 • forkunnar forvirki
 • falla um gund alla,
 • flýja flokkar lygi,
 • fjandi stökk úr landi.
 •  
 • Skilið á, að skuli
 • skildi vel halda
 • maður fyrir móðum
 • mæringi, nær
 • aftur sækir eftir
 • aldyggum hal
 • flokkur flár nokkur
 • freka, sem var rekinn.
 •  
 • Skilið á hann, skuli
 • skilja rétt vilja
 • Frónbúar nú,
 • að hann fremdarheit efndi;
 • dýrum blóðdreyra,
 • dörsæfðu fjöri
 • oft hafa keyptan
 • ýtar sigur nýtan.
 •  
 • Úti sat und hvítum
 • alda faldi
 • fjallkonan snjalla
 • fögur ofan lög;
 • sá hún þar lágu
 • á landi og sandi
 • fallin með öllu
 • forvirkin hin styrku.
 •  
 • Hrjáð yfir láð
 • þá her æstur fer
 • og bárur brimóra
 • bandið auka landa,
 • hvur er sá er þori
 • heimsóknar þeim
 • synja, jafnt og dynja
 • sóttir yfir dróttir?
 •  
 • Þörf er brýn á djörfum
 • þegnum, er gegn
 • fara þori fara
 • flæmings afskræmi;
 • þörf er og á djörfum
 • þegnum, er megni
 • sterklig vinna stórvirki,
 • strita samt með viti.
 •  
 • Veit eg eitt að vitur
 • vildi hann skyldi
 • öll fá margbætt spjöllin
 • ástland hans – en brást.
 • Sá hann þar lágu
 • á landi og sandi
 • fallin með öllu
 • forvirkin hin styrku.
 •  
 • Lýður landráður!
 • láttu sjá, vel máttu
 • bæta vígi brotin
 • braml það við og svaml.
 • Lýður landráður!
 • léttu nú svefnhettu,
 • enn er nóg að vinna,
 • einum er starf meinað.
 •  
 • Úti sat und hvítum
 • alda faldi
 • fjallkonan snjalla
 • fögur ofan lög;
 • sá hún þar á,
 • er eybúa grúi
 • mesta manns að flestu
 • moldu vígðu hold.
Samið árið 1842.
Eiginhandarrit er varðveitt á Landsbókasafni (Lbs. 202 fol).
[Fyrirsögn „Erfiljóð“ : „Dr. Magnúsar Ó. Stephensens conferenceráðs. Flokkur.“ fyrirsögnin er yfirstrikuð og skrifað í staðinn: „Magnúsar-kviða“].
Frumprentun í: „Grafminningar og erfiljóð“ Viðeyjarklaustri 1842.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn