Fylgstu með okkur á Facebook

Quis multa gracilis

(Horatius)
 • Hver er hinn ungi,
 • ilmsmurði sveinn
 • er á rósareit
 • ríkum og mjúkum
 • faðmar þig fast,
 • undir fögrum skúta,
 • svölum og sælum?
 • seg mér það, Pyrrha!
 •  
 • Lokka ljósgula
 • leysir þú honum,
 • skemmtunar skoðun,
 • skart þitt óbrotið.
 • Ó, hve oftlega
 • ástir rofnar
 • og gremi goða
 • hann gráta skal!
 •  
 • Dynjandi dröfn
 • fyrir dimmum vindi
 • undrast hann, úfnum
 • óvanur sjó,
 • sá er nú nýtur
 • náveru þinnar
 • og gulli hreinni
 • þig getur vera.
 •  
 • Einum hann vonar
 • þú unir sér
 • æ, og aldregi
 • öðrum sinnir;
 • veit hann víst eigi,
 • að veður hvikult
 • skamma stund skipast
 • í skýlofti.
 •  
 • Aumir eru allir
 • óreynd er þú
 • ástar alglæst
 • í augu gengur.
 • Forðað hef ég feigu
 • fjörvi mínu,
 • sem á hám, helgum
 • hofsvegg má sjá.
 •  
 • Hangir þar heitspjald
 • hermandi svo:
 • að ég efnt hafi
 • upp að festa
 • sjóföt mín samtöld,
 • salti drifin,
 • drottni djúps
 • til dýrðar ríkum.
Þýtt á árunum 1844-1845.
Eiginhandarrit er varðveitt á Landsbókasafni (ÍB 13 fol. Handritasafn Bókmenntafélagsins).
Frumprentun í: Fjölnir 8. ár, 1845. [Fyrirsögn: Kvæði eptir Horatius. (Quis multa gracilis.)].
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn