Fylgstu með okkur á Facebook

Saknaðarljóð

 • Þá var eg ungur
 • er unnir luku
 • föðuraugum
 • fyrir mér saman;
 • man eg þó missi
 • minn í heimi
 • fyrstan og sárstan
 • er mér faðir hvarf.
 •  
 • Man eg afl andans
 • í yfirbragði
 • og ástina björtu
 • er úr augum skein.
 • Var hún mér æ
 • sem á vorum ali
 • grös in grænu
 • guðfögur sól.
 •  
 • Man eg og minnar
 • móður tár
 • er hún aldrei sá
 • aftur heim snúa
 • leiðtoga ljúfan,
 • ljós á jörðu
 • sitt og sinna –
 • það var sorgin þyngst.
 •  
 • Mjög hefi’ eg síðan
 • til moldar ganga
 • ættmenni best
 • og ástvini séð.
 • Þá vill hugur
 • harma telja
 • þegar böl búið
 • er brjósti nýtt.
 •  
 • Sá eg inn góða
 • er guði treysti,
 • ungan og öflgan,
 • ættjarðar von,
 • Lárus á bana-
 • bólstur hniginn,
 • líki líkan
 • er eg land kvaddi.
 •  
 • Sá eg með Dönum
 • í dauðra reit
 • Baldvin úr bruna
 • borinn vera –
 • fríða, fullstyrka
 • frelsishetju.
 • Söknuður sár
 • sveif mér þá að hjarta.
 •  
 • Sá eg Torfa –
 • tryggðreyndan vin,
 • hraustan, hreinskilinn
 • og hjartaprúðan –
 • lífi ljúka
 • og lagðan vera
 • ættjörðu fjær
 • er hann unni mest.
 •  
 • Átti ég eftir
 • enn í heimi
 • ungan og fagran
 • ættarblóma;
 • vel mundi kæta,
 • vel mundi bæta
 • laufgrænn kvistur
 • lágan runna.
 •  
 • Það man eg yndi
 • öðru meira
 • er við Skafta
 • skilning þreyttum
 • eður á vænum
 • vinafundi
 • góða, geðspakur,
 • á gleði jók.
 •  
 • Sá eg þig, frændi!
 • fræði stunda
 • og að sælum
 • sanni leita;
 • þegar röðull
 • á rósir skein
 • og bládögg beið
 • á blómi sofanda.
 •  
 • Er þú á hæsta
 • hugðir speki
 • og hátt og djúpt
 • huga sendir.
 • Oft eru myrk
 • manna sonum,
 • þeim er hátt hyggja,
 • in helgu rök.
 •  
 • Brann þér í brjósti,
 • bjó þér í anda
 • ást á ættjörðu,
 • ást á sannleika.
 • Svo varstu búinn
 • til bardaga
 • áþján við
 • og illa lygi.
 •  
 • Nú ertu lagður
 • lágt í moldu
 • og hið brennheita
 • brjóstið kalt.
 • Vonarstjarna
 • vandamanna
 • hvarf í dauðadjúp –
 • en drottinn ræður.
Samið árið 1836.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 3. ár, 1837.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn