Fylgstu með okkur á Facebook

Sólsetursljóð

(G. P. R. James)
 • Hóglega, hæglega,
 • á hafsæng þýða,
 • sólin sæla!
 • síg þú til viðar.
 • Nú er um heiðar
 • himinbrautir
 • för þín farin
 • yfir frjóvga jörð.
 •  
 • Halla þú, röðull!
 • höfði skínanda
 • bráhýr, brosfagur
 • að brjósti Ránar,
 • sæll og sólbjartur,
 • sem þá er stefndir
 • bratta braut
 • á bogann uppsala.
 •  
 • Blessuð, margblessuð,
 • ó, blíða sól!
 • blessaður margfalt
 • þinn bestur skapari!
 • fyrir gott allt
 • sem gjört þú hefur
 • uppgöngu frá
 • og að enda dags.
 •  
 • Dreifðir þú, dagstjarna!
 • dimmu nætur
 • glöð, af glóðbreiðri
 • götu þinni;
 • ljós fékkstu lýðum
 • langar, á gangi,
 • dagstundir dýrar,
 • ó, dagstjarna!
 •  
 • Vaktir þú fugla
 • og fögur blóm vaktir,
 • söng þér að syngja
 • og sætan ilm færa.
 • Hníg nú hóglega,
 • hægt og blíðlega,
 • vegþreytir vindsala!
 • ó, vegstjarna!
 •  
 • Hníg nú hóglega
 • í hafskautið mjúka,
 • röðull rósfagur!
 • og rís að morgni,
 • frelsari, frjóvgari,
 • fagur guðsdagur!
 • blessaður, blessandi,
 • blíður röðull þýður!
 •  
 • Hóglega, hæglega
 • hníg þú að hvílu,
 • skeiðþreytir skjótur!
 • en skamma hríð þó
 • bíð þú, að ástar-
 • augum hlýjum
 • bládöggvað brosir
 • á brjóst jarðar.
 •  
 • Drag nú hið blástirnda,
 • blysum leiftranda
 • salartjald saman
 • yfir sæng þinni;
 • brosi boðandi
 • að af beði munir
 • bráðlega hresstur
 • á himin snúa.
 •  
 • Vonin vorblíða,
 • vonin ylfrjóva
 • drjúpi sem dögg
 • af dýrðarhönd þinni,
 • döpur mannhjörtu
 • í dimmu sofandi
 • veki, sem vallblómin
 • vekur þú á morgni.
 •  
 • Mynd guðs hin máttka!
 • mjúkir draumar
 • glaðlega vakna
 • við geisla þína,
 • eins og náttöldur
 • norðurstrauma
 • bláljósar blika
 • birtu þína við.
 •  
 • Hníg því hóglega
 • í hafskautið mjúka,
 • röðull rósfagur!
 • og rís að morgni,
 • frelsari, frjóvgari,
 • fagur guðsdagur!
 • blessaður, blessandi,
 • blíður röðull þýður!
 •  
 • Hóglega, hæglega
 • hníg þú að hvílu,
 • skeiðþreytir skjótur!
 • en skamma hríð þó
 • leng hinar blíðu,
 • bjarmaljúfu,
 • ástarauðugu
 • aftanstundir.
 •  
 • Skrýð þig svo aftur
 • skrúða gulldregnum,
 • morgunskrúða
 • menn gleðjanda;
 • bú þig að öllu
 • upp að koma
 • fagur og fram bruna
 • í fullu veldi.
 •  
 • Og bjarma breið
 • á brúnir fjalla,
 • áður ljósan dag
 • leiðir á himin;
 • leng þú blessaðan
 • blíðu roða
 • uppkomu þinnar
 • og undirgöngu.
 •  
 • Vekur þú von
 • og vekur þú bæn,
 • hvenær sem dapri
 • dimmu hrindir
 • og augu kætir
 • allrar skepnu;
 • þökk er og lofgjörð
 • á þinni leið.
 •  
 • Vekur þú von
 • og vekur þú bæn,
 • er þú í ljóma
 • líður af himni,
 • aftur í ljóma
 • upp að renna;
 • þökk er og lofgjörð
 • á þinni leið.
 •  
 • Hníg þú hóglega
 • í hafskautið mjúka,
 • röðull rósfagur!
 • og rís að morgni,
 • frelsari, frjóvgari,
 • fagur guðsdagur!
 • blessaður, blessandi,
 • blíður röðull þýður!
Þýtt árið 1842.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn