Fylgstu með okkur á Facebook

Til herra Páls Gaimard

 • Þú stóðst á tindi Heklu hám
 • og horfðir yfir landið fríða,
 • þar sem um grænar grundir líða
 • skínandi ár að ægi blám;
 • en Loki bundinn beið í gjótum
 • bjargstuddum undir jökulrótum –
 • þótti þér ekki Ísland þá
 • yfirbragðsmikið til að sjá?
 •  
 • Þú reiðst um fagran fjalladal
 • á fáki vökrum götu slétta,
 • þar sem við búann brattra kletta
 • æðandi fossar eiga tal,
 • þar sem að una hátt í hlíðum
 • hjarðir á beit með lagði síðum –
 • þótti þér ekki Ísland þá
 • íbúum sínum skemmtan ljá?
 •  
 • Þú komst á breiðan brunageim
 • við bjarta vatnið fiskisæla,
 • þar sem við áður áttum hæla
 • frístjórnarþingi frægu’ um heim;
 • nú er þar þrotin þyrping tjalda,
 • þögult og dapurt hraunið kalda –
 • þótti þér ekki Ísland þá
 • alþingi svipt með hrellda brá?
 •  
 • Nú heilsar þér á Hafnarslóð
 • heiman af Fróni vinaflokkur;
 • við vitum glöggt að anntu okkur,
 • frakkneskur maður frjálsri þjóð;
 • því andinn lifir æ hinn sami
 • þótt afl og þroska nauðir lami.
 • Menntanna brunni að bergja á
 • besta skal okkur hressing ljá.
 •  
 • Vísindin efla alla dáð,
 • orkuna styrkja, viljann hvessa,
 • vonina glæða, hugann hressa,
 • farsældum vefja lýð og láð;
 • tífaldar þakkir því ber færa
 • þeim sem að guðdómseldinn skæra
 • vakið og glætt og verndað fá
 • viskunnar helga fjalli á.
 •  
 • Þvílíkar færum þakkir vér
 • þér sem úr fylgsnum náttúrunnar
 • gersemar, áður aldrei kunnar,
 • með óþreytanda afli ber.
 • Heill sé þér, Páll! og heiður bestur!
 • hjá oss sat aldrei kærri gestur.
 • Alvaldur greiði æ þinn stig!
 • Ísland skal lengi muna þig.
Samið árið 1839.
Eiginhandarrit er varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn [Ny kgl. samling 3282 4to].
Frumprentun í: Sérprent frá 16. janúar 1839 fyrir samsæti til heiðurs Paul Gaimard: „Til Herra Páls Gaimard I samsæti Islendinga i Kaupmannahöfn. Þann 16. Janúarí 1839“.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn