Fylgstu með okkur á Facebook
 

Vesturför velborins herra Brynjólfs sýslumanns P.S.

Fyrsta lína: Að utan og sunnan og austan eg spyr, 
Samið 1845
[Ein nýgjörð og gamansöm bindindisvísa, er heitir: „Vesturför velborins herra Brynjólfs sýslumanns P.S.“ og öðru nafni: Kaupfararskál]
Tvö eiginhandarrit til bæði í Konráð Gíslason [31 a II] mappa með margvíslegu efni frá Jónasi. Handritasafn Konráðs Gíslasonar (Í Árnasafni í Khöfn).
Frumprentun í Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847 [Fyrirsögn: „Vesturför“, undirtitill: „Ein spáný og gamansöm bindindiskviða“].
 • Að utan og sunnan og austan eg spyr,
 • að á séu vestrinu stóreflisdyr,
 • og eins langt og mannsauga út um þær sér
 • sé ekkert af neinu’ og í hurðinni gler.
 • Hann Brynjólfur veltist um bárur á kút
 • að búðarhurð þeirri, og gægðist þar út,
 • og kallar og segir: „eg kom hér um sinn
 • að kaupa mér seytil á legilinn minn.“
 • Og svo er mér frá skýrt, að lýður þess lands
 • það léti, sem til var á „pyttluna“ hans;
 • og svo valt hann aftur og settist í bú,
 • og segir: „guðvelkomnir! drekkið þér nú.“
 • Vér lofum og prísum þann metnaðarmann,
 • til mikilla stórlauna kaupför hans vann,
 • því ókeypis veitir hann öllum og jafnt,
 • og aldregi lækkar á „pyttlunni“ samt.
 • Hann lifi og ríki nú leglinum á!
 • vér lofum og prísum hann héðan í frá;
 • en tappann úr vestkútnum taka er mál
 • og tæma svo höfðingjans kaupfararskál.
 
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn