Fylgstu með okkur á Facebook

Ferðalok

 • Ástarstjörnu
 • yfir Hraundranga
 • skýla næturský;
 • hló hún á himni,
 • hryggur þráir
 • sveinn í djúpum dali.
 •  
 • Veit ég hvar von öll
 • og veröld mín
 • glædd er guðs loga.
 • Hlekki brýt ég hugar
 • og heilum mér
 • fleygi faðm þinn í.
 •  
 • Sökkvi eg mér og sé ég
 • í sálu þér
 • og lífi þínu lifi;
 • andartak sérhvert,
 • sem ann þér guð,
 • finn ég í heitu hjarta.
 •  
 • Tíndum við á fjalli,
 • tvö vorum saman,
 • blóm í hárri hlíð;
 • knýtti ég kerfi
 • og í kjöltu þér
 • lagði ljúfar gjafir.
 •  
 • Hlóðstu mér að höfði
 • hringum ilmandi
 • bjartra blágrasa,
 • einn af öðrum,
 • og að öllu dáðist,
 • og greipst þá aftur af.
 •  
 • Hlógum við á heiði,
 • himinn glaðnaði
 • fagur á fjallabrún;
 • alls yndi
 • þótti mér ekki vera
 • utan voru lífi lifa.
 •  
 • Grétu þá í lautu
 • góðir blómálfar,
 • skilnað okkarn skildu;
 • dögg það við hugðum
 • og dropa kalda
 • kysstum úr krossgrasi.
 •  
 • Hélt ég þér á hesti
 • í hörðum straumi,
 • og fann til fullnustu,
 • blómknapp þann gæti
 • ég borið og varið
 • öll yfir æviskeið.
 •  
 • Greiddi ég þér lokka
 • við Galtará
 • vel og vandlega;
 • brosa blómvarir,
 • blika sjónstjörnur,
 • roðnar heitur hlýr.
 •  
 • Fjær er nú fagri
 • fylgd þinni
 • sveinn í djúpum dali;
 • ástarstjarna
 • yfir Hraundranga
 • skín á bak við ský.
 •  
 • Háa skilur hnetti
 • himingeimur,
 • blað skilur bakka og egg;
 • en anda sem unnast
 • fær aldregi
 • eilífð að skilið.
Samið á árunum 1844-1845.
Eiginhandarrit er varðveitt á Landsbókasafni (ÍB 13 fol. Handritasafn Bókmenntafélagsins).
Frumprentun í: Fjölnir 8. ár, 1845.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Til fróðleiks
 • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
 • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
 • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
 • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
 • Enn finnast bréf Jónasar
 • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
 • Jarðeldasaga Íslands
 • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn