Íslands minni

Þriðjudaginn 20. nóvember, 2007 - Tónlist

Fífilbrekka gróin grund

Lög Atla Heimis við ljóð Jónasar Hallgrímssonar komin út

Íslands minni Myndin á umslagi plötunnar er af Snæfellsjökli séðum úr suðri og er úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, dagsett 19. júní árið 1752.
Íslands minni Myndin á umslagi plötunnar er af Snæfellsjökli séðum úr suðri og er úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, dagsett 19. júní árið 1752.
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is ÍSLANDS minni , plata með lögum Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, kom út á 200 ára afmælisdegi skáldsins á föstudaginn var.
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

ÍSLANDS minni, plata með lögum Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, kom út á 200 ára afmælisdegi skáldsins á föstudaginn var. Það er Fífilbrekkuhópurinn svonefndi sem hefur veg og vanda af útgáfunni, en Sigurður Ingvi Snorrason klarínettuleikari er forsprakki hans. „Mér finnst engin tónlist passa betur við Jónas,“ segir Sigurður um tónlist Atla Heimis. „Algengustu lögin sem fólk þekkir eru dönsk og voru felld að lögum Jónasar, þannig að andblærinn er oft annar en í ljóðinu. Fólk er orðið vant því en þegar maður fer að kafa dýpra í ljóðin finnur maður hins vegar að andblærinn er ekki sá rétti.“

 

Höfðar til allra

Platan var tekin upp á þremur dögum í maí, en á henni eru lög við 26 ljóð sem flest voru samin fyrir u.þ.b. tíu árum. Aðspurður segir Sigurður erfitt að velja eitthvert uppáhaldslag á plötunni. „En ég held nú mikið upp á „Álfareiðina“, eða „Stóð ég úti í tunglsljósi“, þótt ég haldi reyndar upp á öll þessi lög,“ segir hann, og bætir því við að tónlistin eigi að geta höfðað til allra. „Atli samdi þetta í gömlum stíl, eins og hann segir sjálfur, og þetta voru leikhúslög í upphafi þannig að hann hugsaði þetta þannig að börn gætu bæði lært lögin og sungið þau.“

Auk Sigurðar eru flytjendur þau Hulda Björk Garðarsdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari, og Hávarður Tryggvason kontrabassaleikari. Þá má geta þess að veglegur bæklingur fylgir diskinum en í honum má meðal annars finna öll ljóðin sem flutt eru. Íslands minni fæst í verslunum Pennans en Sigurður gefur sjálfur út í samvinnu við Íslenska tónverkamiðstöð.