Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn
Dagana 7. - 9. september var haldin sérstök Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn og nágrenni þar sem efnt var til menningarviðburða af ýmsu tagi. Helstu dagskrárliðir hátíðarinnar voru eftirfarandi:
Að kvöldi 7. september, hélt Fífilbrekkuhópurinn tónleika í Sívalaturni, Bibliotekssalen. Á tónleikunum flutti hópurinn tónlist Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar.
Laugardaginn 8. september var farið frá Kaupmannahöfn á slóðir Jónasar Hallgrímssonar í Sorø undir leiðsögn Böðvars Guðmundssonar. Í Sorø var m.a. snæddur hádegisverður, lesið úr bréfum Jónasar og flutt úrval ljóða hans.
Sunnudaginn 9. september var boðið upp á gönguferð um slóðir Jónasar Hallgrímssonar í miðborg Kaupmannahafnar undir leiðsögn Sigrúnar Gísladóttur.