Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn


Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn

Dagana 7. - 9. september var haldin sérstök Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn og nágrenni þar sem efnt var til menningarviðburða af ýmsu tagi. Helstu dagskrárliðir hátíðarinnar voru eftirfarandi:

Að kvöldi 7. september,  hélt Fífilbrekkuhópurinn tónleika í Sívalaturni, Bibliotekssalen. Á tónleikunum flutti hópurinn tónlist Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar.

Laugardaginn 8. september var farið frá Kaupmannahöfn á slóðir Jónasar Hallgrímssonar í Sorø undir leiðsögn Böðvars Guðmundssonar. Í Sorø var m.a. snæddur hádegisverður, lesið úr bréfum Jónasar og flutt úrval ljóða hans.

Sunnudaginn 9. september var boðið upp á gönguferð um slóðir Jónasar Hallgrímssonar í miðborg Kaupmannahafnar undir leiðsögn Sigrúnar Gísladóttur.

 
 
Þann 9. september var einnig efnt til málþings um Jónas Hallgrímsson á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Á málþinginu var sjónum beint að Jónasi sem ljóðskáldi og náttúruvísindamanni. Fyrirlesarar voru bókmenntafræðingarnir Sveinn Ingvi Egilsson, Dagný Kristjánsdóttir og Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur.

Aðstandendur Jónasarársins eru: Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, Menntamálaráðuneytið, Dansk-Islandsk Samfund, Jónshús, Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn, Kórinn Staka, Bókmenntaklúbburinn Thor, Nordisk forskningsinstituts og Kaupmannahafnarháskóli.