Stúlkan í turninum á disk

Föstudaginn 23. nóvember, 2007 - Innlendar fréttir

Stúlkan í turninum á disk

SN flytur tónlist Snorra Sigfúsar við ævintýri Jónasar

Snorri Sigfús Birgisson 
Snorri Sigfús Birgisson
Guðmundur Óli Gunnarsson
[ Smelltu til að sjá stærri mynd ]
FYRSTI geisladiskurinn með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er að koma út.

 

FYRSTI geisladiskurinn með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er að koma út. Þar leikur hún tónverk eftir Snorra Sigfús Birgisson við ævintýrið um Stúlkuna í turninum eftir Jónas Hallgrímsson og af því tilefni verður hljómsveitin með tónleika í Ketilhúsinu á Akureyri á sunnudaginn.

Snorri Sigfús samdi tónverkið að beiðni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem flutti það á síðan á skólatónleikum í grunnskólum á Norðurlandi haustið 2005.

Sagan fjallar um baráttu góðs og ills. Boðskapurinn er sígildur og skýr, hið góða mun sigra að lokum ef við sýnum nægilega trú og tryggð. Tónlistin túlkar söguna samhliða því sem hún er sögð. Upptaka á tónverkinu var gerð í tónlistarhúsinu Laugarborg í janúar árið 2006. Í bæklingi með geisladiskinum er ævintýri Jónasar prentað í heild sinni með myndskreytingum listakonunnar Veronicu Nahmias, sem búsett er í Hollandi og vel þekkt þar í landi m.a. fyrir að myndskreyta barnabækur. Þá er í bæklingnum ritgerð eftir Pál Valsson sem hann nefnir Jónas og uglurnar.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands mun kynna geisladiskinn með tónleikum í Ketilhúsinu á Akureyri á sunnudaginn kl. 16. Sögumaður er tónskáldið Snorri Sigfús Birgisson og stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson. Aðgangur er ókeypis en hægt er að kaupa geisladiskinn á staðnum.

Útgáfan var styrkt af afmælisnefnd Jónasar Hallgrímssonar í tilefni af 200 ára ártíð skáldsins.