Valstika

Æviferill Jónasar

Jónas Hallgrímsson fæddist þann 16. nóvember árið 1807 að Hrauni í Öxnadal.

Skoða fæðingarvottorð

Hann var sonur hjónanna Hallgríms Þorsteinssonar aðstoðarprests og Rannveigar Jónasdóttur.

Jónas átti þrjú systkini. Þorsteinn var elstur, fæddur árið 1800, næst í röðinni var Rannveig, fædd árið 1802, þriðji í röðinni var Jónas og yngst var Anna Margrét, fædd árið 1815.

Árið 1808 fluttist Jónas með fjölskyldu sinni að Steinsstöðum í Öxnadal. Þar ólst hann upp til níu ára aldurs en þá missti hann föður sinn sem drukknaði í Hraunsvatni. Eftir föðurmissinn var Jónas sendur í fóstur til móðursystur sinnar að Hvassafelli í Eyjafirði og er talið að þar hafi hann dvalið til ársins 1820.

Jónas fermdist þann 27. maí árið 1821 heima í Öxnadal en veturna 1821-1823 dvaldi hann í Skagafirði þar sem hann var í heimaskóla hjá séra Einari H. Thorlacius.

Jónas stundaði almennt nám í Bessastaðaskóla í sex vetur frá 1823 til 1829 og naut til þess skólastyrks. Eftir útskrift frá Bessastaðaskóla flutti Jónas til Reykjavíkur og gerðist skrifari hjá Ulstrup bæjar- og landfógeta og bjó á heimili fógetans. Jafnframt því að vera skrifari fógeta var Jónas skipaður verjandi í nokkrum málum fyrir landsrétti.

Sagt er að veturinn 1831-1832 hafi Jónas beðið Christiane Knudsen en hún hafi hafnað bónorði hans.

Í ágúst árið 1832 sigldi Jónas frá Reykjavík til Kaupmannahafnar. Eftir að hafa staðist inntökupróf hóf hann nám lögfræði í Hafnarháskóla og bjó á Garði fyrstu fjögur árin í náminu á meðan hann naut Garðstyrks. Jónas flutti af Garði vorið 1836 og hafði þá snúið sér að námi í náttúruvísindum og fékk styrk úr Sjóðnum til almennra þarfa til að stunda rannsóknir og nám í náttúruvísindum. Náttúruvísindanáminu lauk Jónas svo vorið 1838.

Á námsárunum í Kaupmannahöfn stofnaði Jónas tímaritið Fjölni ásamt þeim Brynjólfi Péturssyni, Konráði Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni. Einnig orti hann kvæði, skrifaði sögur, samdi og flutti erindi og vann að ýmsum þýðingum.

Vorið 1837 fór Jónas til Íslands. Hann ferðaðist um landið um sumarið og stundaði rannsóknir í náttúruvísindum og sneri til baka til Kaupmannahafnar um haustið.

Í ágúst 1838 hlaut tillaga Jónasar um að Hið íslenska bókmenntafélag réðist í ritun Íslandslýsingar samþykki og var Jónas valinn í nefnd sem átti að sjá um framkvæmd verksins.

Vorið 1839 hélt Jónas aftur til Íslands til að stunda vísindarannsóknir og vinna við fyrirhugaða Íslandslýsingu. Á ferð sinni um landið þetta sumar ofkældist hann og þjáðist upp frá því af lungnameini. Hann dvaldi í Reykjavík veturinn 1839-1840 og var mikinn hluta vetrar rúmliggjandi.

Vorið 1840 vann Jónas að Íslandslýsingunni en jafnframt lagði hann til við Reykjavíkurdeild Hins íslenska bókmenntafélags að haldnar yrðu veðurdagbækur víðsvegar um Ísland. Tillagan var samþykkt og var Jónas skipaður í þriggja manna nefnd um verkið.

Sumarið 1840 ferðaðist Jónas um Ísland og vann að ýmsum rannsóknum. Hann dvaldi í Reykjavík veturinn 1840-1841.

Sumarið 1841 fór Jónas í fjórðu rannsóknarferð sína um Ísland og dvaldi svo í Reykjavík veturinn 1841-1842 við ýmis vísindastörf og skýrsluskrif og kom m.a. á fót vísi að náttúrugripasafni. Einnig vann hann að þýðingu bókarinnar Stjörnufræði eftir G. F. Ursin sem kom út í íslenskri þýðingu í maí árið 1842.

Sumarið 1842 fór Jónas í fimmtu rannsóknarferð sína um Ísland. Um haustið, eftir að hafa ferðast sumarlangt um Austurland veiktist hann, og lá veikur þangað til hann hélt til Kaupmannahafnar frá Eskifirði.

Þegar til Kaupmannahafnar kom var hann ráðinn, ásamt Jóni Sigurðssyni, sem fastur starfsmaður Hins íslenska bókmenntafélags til að rita Íslandslýsingar.

Jónas dvaldi sumarið 1843 á Sóreyju á Sjálandi og vann að skýrslum frá Íslandsferðum en einnig að ritum um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi.

Jónas sneri aftur til Kaupmannahafnar frá Sórey í maí árið 1844 og dvaldi þar það sem eftir var ævinnar.

Að kvöldi hins 21. maí 1845 hrasaði Jónas í stiga á leið upp í herbergið sitt, í St. Pederstræde 140 í Kaupmannahöfn, og fótbrotnaði. Daginn eftir var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést að morgni hins 26. maí 1845, aðeins 37 ára gamall.

Útför Jónasar var gerð 31. maí 1845 og var lík hans grafið í Assistentskirkjugarði í Kaupmannahöfn. Hið íslenska bókmenntafélag kostaði jarðarförina.

Skoða handrit varðandi útför Jónasar.

 

Heimildir:

Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar IV. bindi: Skýringar og skrár. Reykjavík: Svart á hvítu.

Páll Valsson. (1999). Jónas Hallgrímsson: Ævisaga. Reykjavík: Mál og menning.