Valstika

Persónan Jónas

Konráð Gíslason, vinur Jónasar, lýsti útliti hans á eftirfarandi hátt í eftirmælum sem birtust í Fjölni (9. ár, 1847, bls. 5):

„Jónas var gildur meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og limaður vel, en heldur feitlaginn á hinum seinni árum sakir vanheilsu, vel rjettur í göngu, herðamikill, baraxlaður, og nokkuð hálsstuttur, höfuðið heldur í stærra lagi, jarpur á hár, mjúkhærður, lítt skeggjaður og dökkbrýnn. Andlitið var þekkilegt, karlmannlegt og auðkennilegt, ennið allmikið, og líkt því, sem fleiri enni eru í hans ætt. Hann var rjettnefjaður og heldur digurnefjaður, granstæðið vítt, eins og opt er á Íslendingum, og vangarnir breiðir, kinnbeinin ekki eins há og tíðast er á Íslandi, munnurinn fallegur, varirnar mátulega þykkvar; hann var stóreygður og móeygður, og verður því ekki lýst, hversu mikið fjör og hýra var í augum hans, þegar hann var í góðu skapi, einkum ef hann ræddi um eitthvað, sem honum þótti unaðsamt um að tala“.

Jónas þótti vera viðkvæmur og dulur en þó er vitað að hann eignaðist góða vini meðal skólapilta í Bessastaðaskóla sem voru til dæmis þeir Tómas Sæmundsson og Páll Melsteð.

Páll sagði síðar um kynni sín af Jónasi í Bessastaðaskóla að honum hefði þótt merkilegt flest af því sem Jónas sagði því hann hafi fundið að öllu sem var ljótt og ósatt og hefði kennt sér að taka ekki allt trúanlegt sem sagt var. Einnig sagði Páll að Jónas hafi sagt góðar og skemmtilegar smásögur, verið meðal bestu söngmanna Bessastaðaskóla og hafi verið góður sund og íþróttamaður.

Konráð Gíslason taldi að Jónas hafi átt styrk sem hann fékk til náms í Bessastaðaskóla skilinn vegna siðprýði og námsgetu. Hann segir þó jafnframt: „Að sönnu er þess getið í skólavitnisburðinum, að hann hafi heldur verið hyskinn, fyrstu árin sín í skóla; en þeir, sem þá voru honum samtíða, munu flestir verða við að kannast, að hyskni hans hafi verið eins affaragóð, og ástundun þeirra, bæði að því leyti, sem honum veitti ljettara námið, og líka hins vegna, að hann hafði alla jafna eitthvað fallegt fyrir stafni, sem átti við eðli hans, og að minnsta kosti seinni árin sín í skóla kynnti hann sjer margt annað, enn skólalærdóm. Það má t. a. m. fullyrða, að hann hafi nærri því kunnað utanbókar kvæði hins forna skálds Ossíans, snúin á dönsku af sjera Steini Blicher. Um þetta leyti samdi hann líka smá – ritgjörðir og orti smá-kvæði, og er sumt af því enn óglatað“ (Fjölnir 9. ár, 1847, bls. 2).

Jónasi hefur verið lýst sem skartmanni sem vildi vera vel til fara og fékk hann sér til dæmis föt frá Kaupmannahöfn þegar hann starfaði sem skrifari hjá Ulstrup fógeta í Reykjavík.

Þó að Jónas hafi þótt dulur þá tók hann samt þátt í þeim skemmtunum sem stóðu til boða á þessum tíma svo sem danssamkomum og spilakvöldum og segir í bréfi vorið áður en hann sigldi til Kaupmannahafnar að hann hafi haft nóg að gera í samkvæmislífinu þann vetur.

Eftir komuna til Kaupmannahafnar var Jónas m.a. félagsmaður í Lestrarfélagi Garðbúa.

Jónas var yfirleitt ekki fjáður og þurfti því oft að leita eftir styrkjum til dæmis til að fjármagna ferðir sínar og rannsóknir. Í heimildum um Jónas er þess getið að honum hafi fallið illa að vera fjárvana og að hann hafi átt erfitt með að sætta sig við þær hömlur sem fjárskorturinn setti honum.

Til eru ýmis skjöl varðandi fjárhag Jónasar og eru þessi þar á meðal:

Fjármáladagbók
(ÍB 13 fol)
Reikningur
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Reikningur frá Petersdorf Skrædermester, 31. des. 1843
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Reikningur – Finn Magnússon 1843
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Kvittun 3. maí 1844
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Varðandi Íslandslýsingar, undirritað JHallgrimsson
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Minnisblað viðvíkjandi Afreikningi herra Cand J. Hallgrímssonar við Hið íslenska Bókmenntafélag í Kaupmannahöfn
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Afregning með ... Jonas Hallgrimsson (16. sept. 1843)
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Til Finns Magnússen, 14. okt. 1844
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Reikningur frá Petersdorf Skrædermester 31. des. 1844
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Blað með undirskrift JHallgrimsson
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Mjer borgað af gjaldkera ...
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Um Sören Kattrup og Etatsraad Magnussen og maanedpenge for April
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)
Til Finns Magnússonar 29. apríl 1845
(Lbs. H. í. b. Kassi nr. 1)

Um heilsufar Jónasar segir Konráð í eftirmælunum að á ferðum Jónasar um Ísland á árunum 1837 til 1842 hafi heilsufar hans breyst til hins verra þar sem hann hafi veikst af brjósthimnubólgu og hafi legið lengi veikur í Reykjavík og síðan hafi hann átt við heilsuleysi að stríða það sem eftir var. Eftirfarandi er lýsing Konráðs á síðustu dögum Jónasar: „15. maí seint um kveldið, þegar hann gekk upp stigann hjá sjer*)[ St. Pederstræde 140, 3. Sal], skruppu honum fætur, og gekk sá hægri í sundur fyrir ofan ökla; komst hann þó á fætur og inn til sín, lagðist niður í fötunum og beið svo morguns. Þegar inn var komið til hans um morguninn, og hann var spurður, því hann hefði ekki kallað á neinn sjer til hjálpar, sagði hann, að sjer hefði þótt óþarfi að gjöra neinum ónæði um nóttina, af því hann vissi, hvort sem væri, að hann gæti ekki lifað. Því næst ljet hann flytja sig í Friðriksspítala en ritaði fyrst til etazráðs Finns Magnúss-sonar, til að fá hann til ábyrgðarmanns um borgun til spítalans. Þegar Jónas var kominn þangað og lagður í sæng, var fóturinn skoðaður, og stóðu út úr beinin; en á meðan því var komið í lag, og bundið um, lá hann grafkyr, og var að lesa í bók, en brá sjer alls ekki. Þar lá hann fjóra daga, vel málhress og lífvænlegur yfirlitum; en fjórða daginn að kvöldi, þegar yfirlæknirinn gekk um stofurnar, sagði hann við aðstoðarmenn sína, þegar hann var genginn frá rúmi Jónasar: ”tækin verða að bíta í fyrra-málið, við þurfum að taka af lim”; hafði læknirinn sjeð, að drep var komið í fótinn, en hins varði hann ekki, að það mundi dreifast eins fljótt um allan líkamann, og raun varð á. Jónas bað, að ljós væri látið loga hjá sjer um nóttina; síðan vakti hann alla þá nótt, og var að lesa skemmtunar-sögu, sem heitir Jacob Ærlig, eptir enskan mann, Marryat að nafni, þangað til að aflíðandi miðjum-morgni; þá bað hann um te, og drakk það, fjekk síðan sinardrátt rjett á eptir, og var þegar liðinn; það var hjer um bil jöfnu báðu miðsmorguns og dagmála, hálfri stundu áður en taka átti af honum fótinn“. Heimildir: Tómas Guðmundsson. (1971). Um Jónas Hallgrímsson. Í Tómas Guðmundsson (bjó til prentunar), Jónas Hallgrímsson: Ritsafn. 4. útg. (bls. 9-45). [Reykjavík]: Helgafell. [Konráð Gíslason]. (1847). Jónas Hallgrímsson. Fjölnir, 9. ár, bls. 1-6.