Valstika

Stúdentinn Jónas

„Jónas Hallgrímsson var með lærðustu mönnum síns tíma, líka í prófum metið, því auk þessara lokaprófa hafði hann próf frá Bessastöðum, studiosus theologiæ, sem gerði hann gjaldgengan til prestsembættis á Íslandi, og loks candidatus philosophiæ próf með ágætiseinkunn frá Kaupmannahafnarháskóla“ (Páll Valsson, 1999, bls. 202).

Fyrstu námsárin

Þegar Jónas dvaldi í Hvassafelli í Eyjafirði naut hann tilsagnar veturinn 1819-1820 hjá séra Jóni lærða Jónssyni í Möðrufelli. Eftir fermingu vorið 1821 fór hann í heimaskóla í Goðdölum í Skagafirði þar sem hann stundaði nám veturna 1821-1823 hjá séra Einari H. Thorlacius og fór þaðan í Bessastaðaskóla.

Nám í Bessastaðaskóla

Jónas hóf nám í Bessastaðaskóla fyrsta október árið 1823 og stundaði nám þar í sex vetur. Hann útskrifaðist frá skólanum 10. júní árið 1829 með prófgráðuna studiosus theologiæ. Slík prófgráða veitti réttindi til að sinna prestsembætti á Íslandi. Vitað er til þess að Jónas hafi að minnsta kosti tvisvar sótt um prestaköll á Íslandi en fékk hvorugt embættið.

Á skólaárunum í Bessastaðaskóla tók Jónas tók þátt í félagslífinu og er talið að hann hafi skrifað í skólablað Bessastaðaskóla sem hét Íris. Eiginhandarrit af skólablaðinu með efni eftir Jónas er varðveitt í Árnastofnun í KG 31 a (1-1). Í blaðinu eru eftirfarandi þættir:

Hebreska grammatík Lesa grein
Rekumaki Lesa grein
Lemuribus sacrum Lesa grein
Dýranna meðhöndlan Lesa grein

Jafnframt eru varðveitt í Árnastofnun eftirtalin eiginhandarrit og skjöl:
Dimissons ræða Jónasar Hallgrímssonar í KG 31 a (1-3) 
Burtfararvottorð Jónasar Hallgrímssonar úr Bessastaðaskóla í KG 31 a (1-4)

Nám í Kaupmannahöfn

Í ágúst 1832 sigldi Jónas til Kaupmannahafnar og innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla eftir að hafa lokið inntökuprófi (examen artium) í október 1832. Skoða prófskírteini (Lbs 1193 4to)

Jónas flutti inn á Garð, Regensen, og naut garðstyrks í fjögur ár. Stúdentum á þessum tíma var skylt að ganga í lífvörð konungs og gekk Jónas því í hann og stundaði heræfingar samkvæmt þeirri skyldu.

Fjárhagsvottorð L. Kriegers stiftamtmanns um Jónas og meðmæli Ulstrups land- og bæjarfógeta um Jónas eru varðveitt á Landsbókasafni í ÍB 13 fol. Skoða handrit

Þó Jónas hafi byrjað í laganámi þegar hann kom til Kaupmannahafnar þá stundaði hann einnig nám í náttúrufræði og sneri hann sér svo alfarið að því námi þ.e. í dýrafræði og jarðfræði. Rannsóknir í náttúrufræði stundaði Jónas á Konunglega náttúrufræðisafninu í Kaupmannahöfn.

Námsferill Jónasar í Kaupmannahöfn:

  • Lauk inntökuprófi (examen artium) í október 1832.
  • Lauk fyrirhluta annars prófs (examen philologicum) í apríl 1833.
  • Lauk m.a. prófi í náttúrusögu Historia naturalis, með góðri umsögn í fyrri hluta lærdómsprófanna vorið 1833.
  • Lauk síðari hluta annars prófs (examen philosophicum) í nóvember 1833.

Veturinn 1834-1835 sneri Jónas sér að mestu að námi í náttúrufræði en hætti þó ekki að kalla sig stud. juris fyrr en árið 1838 þegar hann fór að kalla sig cand. philos eftir því sem fram kemur hjá Páli Valssyni (1999, bls. 91-93).

Árið 1838 lauk Jónas lokaprófi í náttúruvísindum með steinafræði og jarðfræði sem sérgrein.


Heimildir:

Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar IV. bindi: Skýringar og skrár. Reykjavík: Svart á hvítu.

Páll Valsson. (1999). Jónas Hallgrímsson: Ævisaga. Reykjavík: Mál og menning.

Tómas Guðmundsson. (1971). Um Jónas Hallgrímsson. Í Tómas Guðmundsson (bjó til prentunar), Jónas Hallgrímsson: Ritsafn. 4. útg. (bls. 9-45). [Reykjavík]: Helgafell.