Valstika

Skáldið Jónas

Jónas Hallgrímsson orti fjölmörg kvæði og samdi nokkrar sögur á sinni stuttu ævi. Einnig þýddi hann erlend skáldverk á íslenska tungu. Hann gaf ekki sjálfur út bækur með skáldverkum sínum en þó birtust sum verka hans í tímaritinu Fjölni.

Að Jónasi látnum söfnuðu þeir Konráð Gíslason og Brynjólfur Pétursson saman kvæðum og sögum Jónasar ásamt þýðingum hans og gáfu út ritsafn Jónasar árið 1847. Í þessu ritsafni gerðu þeir ýmsar breytingar á kvæðunum. Í þeim kvæðasöfnum Jónasar sem síðar voru gefin út var stuðst við útgáfu þeirra Konráðs og Brynjólfs og birtust verkin því með þeim breytingum sem þeir gerðu.

Í ritsafninu Ritverk Jónasar Hallgrímssonar - Ljóð og lausamál í ritstjórn Hauks Hannessonar, Páls Valssonar og Sveins Yngva Egilssonar eru kvæðin rituð samkvæmt frumgögnum t.d. eiginhandarritum Jónasar og því er orðalag sumra kvæðanna í þessu ritsafni frábrugðið því sem er í fyrri ritsöfnum.

Þar sem á þessum vef er hægt að skoða myndir af kvæðum Jónasar í eiginhandarritum eru kvæðin á vefsíðunum rituð eins og þau birtast í Ritverk Jónasar Hallgrímssonar – Ljóð og lausamál í ritstjórn þeirra Hauks, Páls og Sveins Yngva því þannig eru þau líkust því sem stendur í handritunum þ.e. eins og Jónas skrifaði þau.

Tekið er fram í ritsafninu að nútímastafsetningu sé fylgt en orðmyndum og sérstökum málvenjum sé leyft að standa óbreyttum.

Fjallað er um skáldskap Jónasar og birtar enskar þýðingar á ljóðum hans á vef Háskólans í Wisconsin (University of Wisconsin-Madison General Library System). Vefurinn heitir Jónas Hallgrímsson: Selected Poetry and Prose og er slóðin: http://www.library.wisc.edu/etext/Jonas/. Ritstjóri vefsins er Dick Ringler.

Heimildir:

Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál. Reykjavík: Svart á hvítu.

Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989).  Ritverk Jónasar Hallgrímssonar IV. bindi: Skýringar og skrár.  Reykjavík: Svart á hvítu.