Valstika

Hebreska grammatík

Hebreska grammatík

Þú varst að spurja af hvurju renni svona mikið úr augunum í mér? Orsökin er þessi:

Í nótt eð var, ég held klukkan 2, kvaldist ég ofan að sækja ljós – ég man enn hvað illt mér var í höfðinu af því sem ég barði í það í gærkveldi þegar ég var að læra Schva; þegar ég kom upp aftur með ljósið snerist allt fyrir augunum í mér og ég var allur einhvurn veginn ekki almennilegur, samt lagðist ég aftur upp í og fór að blaða þarna í miðri Rasmussens grammatík. Jæja! Þar sem ég átti von á Silluk og Athnach var allt orðið öðruvísi – ég las – og þar stóð þá eftirfylgjandi:

  • Dári! þú sem með degi löngum
  • dillini-sveittum yfir mér vöngum
  • veltir, rétt eins og vitlaus sért,
  • hættu rabbínskum hugleiðingum,
  • hyggðu’ heldur að hvað þarna’ er kringum
  • hálsinn á þeim, mig hefir gjört.

Ég rak upp augun – en það sem ég sá ætla ég ekki að segja þér í þetta sinn – þú sérð bara hvað gott mér er í augunum.

Úr skólablaðinu Íris: „Iris – No.3. – 1826 – Föstudaginn 3ja Novmbr.“

Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (31 a I).

Kvæðið sem er í greininni er líka í kvæðahefti Jónasar frá árunum 1828-32 (KG 31 b I)

Frumprentun í: Rit eftir Jónas Hallgrímsson I (Ljóðmæli, smásögur og fleira). Rvík 1929. [Heildarútgáfa á verkum Jónasar í umsjón Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar í 5 bindum sem kom út í Rvík á árunum 1929-37].

Heimild:

Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 325. Reykjavík: Svart á hvítu.