Fylgstu með okkur á Facebook

Rekumaki

(Framhald)

Meðal þeirra mörgu er nema skyldu speki af Óðni var sá nokkur er kallaður var Rekumaki. En sökum þess hann var lítt laginn til munnlegrar fræði, fór hann á fund Loka og sagir að hann vill að hönum nema lævísi: „Kveð eg mér slíka duga muni til að halda virðingu minni til jafns við þá er fremur afla speki að Óðni.“

Í þessi íþrótt varð hann skjótt fullnumi enda var hún hönum mjög að skapi; en með því Loki var óvinsæll með ásum sökum illsku hans og hrekkja, var það talin ósæmd hvurjum manni að nema þá fræði að hönum. Fyri því lagði Óðinn og hans flokkur mikinn óþokka á Rekumaka enda var hann Loka heldur til áþekkur, hann var örorður um háttsemi manna, stórorður og illorður við þá er hann ei taldi sér jafnsnjalla, hávær hvursdagsl. og manna svikulastur, þýfi hans og gripdeildir juku ei heldur alllítið óþokka hans, hvað allt hann gjörði daglega í trausti lævísi sinnar er ekki gat dulist fyri Mímir er vissi alla hluti í jörð og á. Þetta mælti Tími yfir moldum hans „að hann hefði eigi minna illt gjört með alda sonum en Loki með ásum.“

Úr skólablaðinu Íris: „Iris – No.3. – 1826 – Föstudaginn 3ja Novmbr.“

Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (31 a I).

Frumprentun í: Jónas Hallgrímsson: Ljóð og lausamál. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi. Ritstjórar: Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson. Reykjavík 1989.

Heimild:

Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 326. Reykjavík: Svart á hvítu.

Til fróðleiks
  • Jónas Hallgrímsson og stjörnufræðin
  • Áhersla á nýyrði á degi íslenskrar tungu 2018
  • Nýyrðasmíð Jónasar í Orðbragði
  • Vísubotn 2018 - vísnasamkeppni grunnskólanema
  • Grein um steinasöfn Jónasar í Náttúrufræðingnum
  • Enn finnast bréf Jónasar
  • Raddir íslenskunnar 2017 - örmyndbönd
  • Jarðeldasaga Íslands
  • Nýr fánadagur - Dagur íslenskrar tungu
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn