Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Illur lækur eða Heimasetan


Skoða handrit

Lækur rennur í lautu,
liggur og til þín sér:
alltaf eftirleiðis
eg skal gá að mér.
 
Nú fór illa, móðir mín!
mér var það samt ekki að kenna;
sástu litla lækinn renna
græna laut að gamni sín,
breikka þar sem brekkan dvín,
bulla þar og hossa sér!
vertu óhrædd! eftirleiðis
eg skal gá að mér.
 
Lækur gott í lautu á,
leikur undir sólarbrekkum,
faðmar hann á ferli þekkum
fjóla gul og rauð og blá;
einni þeirra eg vil ná
og svo skvettir hann á mig.
Illur lækur! eftirleiðis
eg skal muna þig.
 
Klukkan mín, svo hvít og hrein,
hún er nú öll vot að neðan;
hefðirðu þá heyrt og séð hann,
hvernig ertnin úr honum skein,
ég hef orðið ögn of sein,
og svo skvetti hann á mig.
Illur lækur! eftirleiðis
eg skal muna þig.
 
Lækur fer um lautardrag,
leikur sér að væta meyna
þá hún stígur þar á steina,
það er fallegt háttalag!
Ég fer ekkert út í dag,
uni, móðir góð! hjá þér,
vertu óhrædd! eftirleiðis
eg skal gá að mér.

Extra: Lækur rennur í lautu,
Til baka