Ljúfi! gef mér lítinn koss,
lítinn koss af munni þínum!
Vel ég mér hið vænsta hnoss,
vinur! gef mér lítinn koss!
Ber ég handa báðum oss
blíða gjöf á vörum mínum.
Ljúfi! gef mér lítinn koss,
lítinn koss af munni þínum!
Leikur kossa lipur er,
lætur þeim er á kann halda,
listin sú ei leiðist mér,
leikur kossa fimur er,
einatt reyni’ eg það hjá þér –
þiggja, taka, endurgjalda.
Leikur kossa lipur er,
lætur þeim er á kann halda.
Vinur! gef mér enn þá einn
ástarkoss af ríkum vörum!
einn fyrir hundrað, ungur sveinn!
einn fyrir þúsund – réttan einn!
einn enn! þú ert ofur seinn,
eg er betur greið í svörum.
Vinur! gef mér enn þá einn
ástarkoss af ríkum vörum!
Rétt sem örskot tæpur telst
tíminn mér við kossa þína;
tíminn sem eg treindi helst
tæplega meir en örskot dvelst,
sárt er að skilja, gráti gelst
gleðin – þiggðu kossa mína!
Rétt sem örskot tæpur telst
tíminn mér við kossa þína.
Kossi föstum kveð ég þig,
kyssi heitt mitt eftirlæti,
fæ mér nesti fram á stig –
fyrst ég verð að kveðja þig.
Vertu sæll! og mundu mig,
minn í allri hryggð og kæti!
Kossi föstum kveð ég þig,
kyssi heitt mitt eftirlæti.