Hlegið var og sungið,
úr heiði skein,
lék að ljósgeislum
á legi sunna;
bárur fluttu bát
borða á milli
vonglöðum varinn
vinum mínum.
Brotnaði bátur
í bermola –
var lítt lagið
lagsmönnum sund;
fórust þeir farvana
á fósturjörðu;
sveif mig úr svaki
að Steinarströnd.
Nú er eg stiginn
á nýja súð
öðrum með ýtum;
öldur mig bera,
ókunnar allar,
aftur og fram;
harla fjær heimkynni
að hjarta þröngir.
Hlæjum enn og syngjum
og á haf leitum!
belja brimhviður,
brakar í kili;
slokknar á himni
stjarnan seinasta;
þröngir að hjarta
heimkynni fjær.