Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Leiðarljóð


til herra Jóns Sigurðssonar alþingismanns

Byr um gráð þig beri
bugþægur, flugnægur;
frói þér á flóa
fundur Ísagrundar.
Sjáðu land, er leiðir
ljós um bláa ósa
glöðust sól, og glæðir
Glámutind í vindum.
 
Tygja þá, og teygja
tá láttu jó gráan
(hvítur hæfir snotrum
hestur framagesti);
móður fyrst og föður
finndu – svo í skyndi
reið um háar heiðar
hertu slyngr að þingi.
 
Hyggjum víst, að vestan
ver ókunnan beri
(járnum jörðu spornar
jór) að klifi stóru;
þá er sem að sjáum:
sveif bifan þig yfir
hvarmahreggs, á barmi
hám Almannagjáar.
 
Breiðir kvöldið blíða
bláan yfir sjáinn
ljósa blæju, hýsa
hængir í marsængu;
hátt um hraunið kletta
hylja runnar, dylja
kjarngrös kaldar firnir,
knýr ramur foss hamar.
 
Búðafjöldinn báða
bakka fríða skrýðir
Öxarár – en vaxa
eina þar um steina
möðrur mjög, og öðrum
mjúk túnblæja hjúkrar,
hunangsfluga holu
hyggin marga byggir.
 
Autt er enn að mönnum
alþingi – talslyngra
hölda (hvað mun valda?)
hafa reiðir tafist.
Nei, ef satt skal segja,
sunnanfjalls þeir spjalla;
þingið fluttu þangað
þeir á kalda eyri.
 
Hlýjan bústað býja
biðjum þér að liði
verða – þiggðu værðir
værar á grund kærri.
Elt svo hina! haltu
hugprúður til búða
Víkur – við þig leiki
völin á mölinni.

Extra: Byr um gráð þig beri
Til baka