Ein sorgleg vísa út af alþingi
samansett
af
Ívari Bárðsyni,
Viðeyjarklaustri.
Þrykkt seinast af öllu, þegar bókþrykkiríið
niðurlagðist.
Naha, naha!
Báglega tókst með alþing enn,
naha, naha, naha!
það eru tómir dauðir menn.
Naha, naha, nah!
Það sést ekki á þeim hams né hold,
naha, naha, naha!
og vitin eru svo full af mold;
naha, naha, nah!
Og ekkert þinghús eiga þeir,
naha, naha, naha!
og sitja á hrosshaus tveir og tveir.
Naha, naha, nah!
Þeir hafa hvurki kokk né pott;
naha, naha, naha!
og smakka hvurki þurrt né vott;
naha, naha, nah!
Og hvurgi fá þeir kaffibaun,
naha, naha, naha!
og eru svangir og blása í kaun;
naha, naha, nah!
Og bragða hvurki brauð né salt,
naha, naha, naha!
og þegja allir og er svo kalt;
naha, naha, nah!
Þeir deyja aftur úr kulda og kröm!
naha, naha, naha!
og holtið er grátt og kvölin söm.
Naha, naha, nah!