Valstika

Annes og eyjar

Jan 31, 2020

Sæunn hafkona


Þokan yfir vík og vogi
votu fangi þögul grúfir,
gnauðar fyrir svölum sandi
sjór, en þegja vindar ljúfir.
 
Báran smáa strýkur steini
(steinn er fyrir þangi bleikur)
eins og sér á köldum karli
konan ung að hári leikur.
 
Hvað er á vogi? hafmey fögur!
hratt hún fer og snýr að landi,
leika fyrir björtu brjósti
bárur ungar sívakandi.
 
Skáldið:
Hafmey fögur! hvaða, hvaða!
hárið bleikt af salti drýpur;
vel skal strjúka vota lokka
vinur þinn, sem hjá þér krýpur.
 
Sæunn:
Djúpt á mjúkum mararbotni
marbendlar mér reistu höllu;
hingað svam eg hafs um leiðir,
hárið er því vott með öllu.
 
Skáldið:
Hafmey fögur! hvaða, hvaða!
hönd og fótur – aldrei slíka
sá eg mynd í sólarheimi,
sinn þau eiga hvurgi líka.
 
Sæunn:
Ein er gyðjan öllum fremri
áður löngu úr hafi gengin,
fljóða prýði, fíra gleði,
fegri mér, og síðan engin.
 
Skáldið:
Hafmey fögur! hvaða, hvaða!
háls og brjóst að þúsundföldu
álitlegri eru og skærri
en „Albert“ hjó úr steinum völdu.
 
Sæunn:
Ástarguð við brjóst mér beygði
boga sinn í fyrri daga,
fyrirmynd því fann hann enga
fegri – það er gömul saga.
 
Skáldið:
Hafmey fögur! hvaða, hvaða!
köld er þú sem mjöll á ísi,
engi roði kviknar á kinnum,
kærum yl þótt augun lýsi.
 
Sæunn:
Bý eg undir kristallkrossi,
kaldri skemmu straumar svala;
bleikar eru bárudætur,
blóðið er rautt í þernum dala.
 
Skáldið:
Hafmey fögur! hvaða, hvaða!
hjartað berst og slær af mæði;
hallaðu að mér höfði þínu,
hvíldu þig svo og þiggðu næði.
 
Sæunn:
Hjartað berst og hjartað titrar,
hjartað slær og berst af mæði,
því eg ann þér miklu meira,
mannsmynd kær! en um eg ræði.

Extra: Þokan yfir vík og vogi
Til baka