Uppi stóð Kain
og á hlýddi
grama guðs dóma,
glataður, rekinn,
útskúfaður einn
öllum í heimi,
skalf hann og skarst hann
og skyggndist um,
og á frám fótum
flótta sinn hóf.
En á græna
grundar hvílu
bleikur bróðir
var í blóð hniginn,
Abel að annast
ástúðleg kom
móðir mannssona
mjúkhent sjúkan.
Álengdar hún sá
að upp lyfti
hjartkærstum syni
hennar í móti
heiftarhönd
hárri bróðir;
að kom þar Eva
er hann öndu sleit.
Farið er fjörvi,
fagur titrar
ungur ástarson,
andar þungan;
rennur rautt blóð
úr rofnum vanga,
lokki ljósgulum
lit festir á.