Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Jan 16, 2020

Lofsöngur


(Claus Frimann)

 

Líti eg um loftin blá
skýin sem sigla fram silfurglitaðan boga,
hálftungls gullnu hornin á,
herinn stjarna, þann tindrandi loga,
þrungna þrumu heimkynnið
þar sem að skruggan skæð skekur dunandi hamar,
rekur fjalli högg á hlið,
hittir skóginn og stórviðu lamar.
:,: Þú ert mikill! hrópa eg hátt.
Himnaguð! eg sé þinn mátt,
fyrir þinni hægri hönd
hnígur auðmjúk í duftið mín önd. :,:
 
Líti’ eg langt um útþönd höf
hvar eð skjót skipamergð skundar vængjuðum húnum,
sökkur dúpt í sjávargröf,
sést svo aftur á aldanna brúnum,
hvar eð sé eg sverðfiskinn,
hnúðurbak, hrosshvelið hart við stökkulinn glíma,
hvar eð flögurflokkurinn
ferðast réttum á vegi og tíma.
:,: Þúr ert mikill! hrópa eg hátt.
Hafsins guð! eg sé þinn mátt,
sjór og hvað þar inni er
órækt vitni um guðdóm þinn ber. :,:
 
Líti’ eg liljum skrýdda jörð,
skoði eg skóg og strönd, skoði’ eg dali og fjöllin,
skoði’ eg bugðubreyttan fjörð,
breiðar elfur og vatnsbunuföllin,
skoði’ eg skepnufjöld ótal
allt frá þeim ormi sem undir duftinu skríður,
yfir féð í fögrum dal
fjær til himins þar beinfleyg örn líður.
:,: Þú ert mikill! hrópa eg hátt.
Heimsins guð! eg sé þinn mátt!
Lofið, himnar, haf og jörð,
hann hvurs mætti þið af eruð gjörð. :,;


Þýtt á árunum 1826-1828.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b).
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847. [Athugasemd: „Þessu kvæði hefur Jónas snúið áður en hann sigldi.“].

Til baka