Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Jan 17, 2020

Röðull brosti, rann að næturhvílu


Röðull brosti, rann að næturhvílu
Ránar til og fögrum sjónum brá
undan léttri utanbakkaskýlu
- aldan beið þar guðinn studdist á. –
Horfðu tindar himinljósi viður,
helgur roði’ um snjóvgar kinnar flaug.
Íslands verndarengill farinn niður,
Ingólfs gleymda stóð á kempuhaug.
 
Hreyfðist land af helgum snortið fótum;
hné þá sól um öldugarðsins bak.
Stormkast undan Snæfells köldu rótum
stólpaský að vesturáttu rak.
Ljós var horfið, hrikti’ í dægurgrindum,
hrímköld nótt um stjörnuhvolfið ók,
byrg oss! fel oss! brast í jökultindum,
byrg oss! fel oss! ströndin endurtók.
 
Allt var kyrrt – frá utanfjarðargrunni
einstök vakin bára stundum hvein.
Rödd er heyrð í rökkurhálfdimmunni,
rödd sem hrærði klakabundinn stein.
Hún kvað margt um horfinn þjóðaranda,
hreystibrest og kveifarlíf og neyð.
Hræddist Ísland – heyrði búinn vanda,
harmastöfum barna sinna kveið.
 
Rann þá dagur, reis af austurstraumum
röðulskin og norðar held’r en fyrr.
Fjör kom nýtt í fætur máttarnaumum,
fýstist enginn lengur sitja kyrr.
Hvur er gnýr sem gegnum loftið hleypur!
- Garðarseyjar losna festarbönd –
„förumk nú og fyrir norðan Greipur
felumst undir Grænlands jökulströnd!“


Samið árið 1829
Tvö eiginhandarrit eru til, annað er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b I) en hitt er varðveitt á Landsbókasafni (JS 129 fol). Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka