Valstika

Kvæði samin 1826 - 1832

Jan 17, 2020

Skraddaraþankar um kaupmanninn


(En variation)

 

Þú sem daglega líða leið
lífs fram að enda sér,
náungann svíkur samt um skeið
sama gleyminn að fer,
:,: þinn spillti þanki er :,:
þreföldum gróðafjötursvefni bundinn.
 
Í léttu rúmi liggur þér
þótt líðir sálartjón,
ágirnd fíkin sem brjóst þitt ber
blindar svo hjartans sjón,
:,: magnaði mammonsþjón :,:
munaðarlausu ekkjuna sem grætir.
 
Vertu’ ekki að huga í vettling þinn,
hann verður fullur senn,
þarna vantar í þumalinn,
því mega borga enn
:,: skapþungir skilamenn :,:
skuldina lognu á svikatöflu þinni.
 
Fátæktartár á frómri kinn
feginn þú renna sér,
að hrekkjum þínum hálfgrobbinn
hlærðu – sem von til er,
en :,: óbænum árnar þér :,:
auminginn svikni sárt og hyski þínu.
 
En hvurgi hér um hirðir þú,
huggun þín gjaldið er,
þitt öfundaða aurabú
aldrei samt gleði lér
:,: en þótt um eyrun þver :,:
á þér rangfengna dalahrúgan klingi.
 
 
Værir þú skynlaus grimmur ger,
getinn á villustig
og allt sem fyrir augun ber
eyðimörk skuggalig,
:,: enginn áteldi þig :,:
sem öngvan þekktir guð og boðorðslausan.
 
Hitt er undur hve uppvex nú
illgresi á kristnri grund,
frómlynda landsmenn flettir þú
fé sínu hvurja stund.
:,: Klækin er kaupmannslund :,:
kæta’ hana andvörp föðurleysingjanna.
 
Drottinn bauð – eitt sinn dynja fer
dómslúður skýjum í;
hve mun þá dyggð þín hrósa sér?
hvurt muntu sleppa frí?
:,: Magnlausa moldarþý :,:
muntu þá guðdómsveldið gulli sigra!


Samið á árunum 1826-1828.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b).
Frumprentun í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka