Valstika

Kvæði samin 1833 - 1837

Jan 17, 2020

Bíum, bíum (Adam Oehlenschläger)


(Adam Oehlenschläger)

 

Bíum, bíum,
barnið góða!
sofðu nú sætt
og sofðu lengi,
þó að höll
og hægindislaus
og grafkyrr
í grundar skauti
vagga þín standi.
Vertu í ró!
 
Heyrirðu stynja
storminn úti
yfir mínum
missi þunga
og átfreka
yrmlingafjöld
furukistu
kroppa þína?
 
Nú kemur hinn hljóðfagri
næturgali;
heyrirðu mjúkan
munaðarklið?
Var það áður
er þú vaggaðir mér;
nú skal ég, veslingur!
vagga þér aftur.
 
Hresstu huga þinn
hans við söng;
allt skal eg þér
til yndis velja;
heyrirðu dimma
við dauðans hlið,
barn mitt! hringja
bjöllu þína?
 
Sé ei hjarta þitt
hart sem steinn,
sjáðu, móðir!
mína iðju:
eg skal af grátviðar
grein þessari
hljóðpípu smíða
handa þér.
 
Hresstu hug þinn
við hennar róm
er hún einmana
úti kvakar,
eins og vindur
á vetrarnótt
villur, vakandi
í votum greinum.
 
Verð eg að víkja
vöggu þinni frá;
kalt er að búa
við brjóst þitt, móðir!
og ég á mér
ekkert hæli
aftur að verma
inni mig.
 
Bíum, bíum,
barnið góða!
sofðu nú sætt
og sofðu lengi,
þó að höll
og hægindislaus
og grafkyrr
í grundar skauti
vagga þín standi.
Vertu í ró!


Þýtt árið 1836.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847, í sögunni „Grasaferð“.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847. [Fyrirsögn: „Úr Aladdin eftir Oelenschläger“].

Til baka