Valstika

Kvæði samin 1833 - 1837

Jan 17, 2020

Dagrúnarharmur


(Friedrich Schiller)

 

Heyri eg að kirkju
klukkur dimmgjalla,
vísir er runninn
vegu sína alla.
Sé það svo – sé það
svo, í guðs nafni!
líkmenn! leiðið mig
á legstað aftöku.
 
Kyssi eg þig hinstum
kossi skilnaðar.
Veröld, ó veröld!
væti ég þig tárum;
sætt var eitur þitt,
er það nú goldið,
eiturbyrla
ungra hjartna!
 
Kveð eg yður geislar
guðs sólar,
flý eg yður frá
í faðm dimmrar móður;
kveð eg þig, blómævi
blíðra ásta,
mey sem margblindar
munaðstöfrum.
 
Sat ég fyrr hvítbúin
sakleysisklæði,
rauðum reifuðu
rósaböndum;
brostu í ljósu
lokkasafni
fögur blóm;
þá voru friðardagar.
 
Hræðilegt, hræðilegt!
helvítisfórn
situr enn í hvítu
sakleysisklæði;
en í hinna rauðu
rósa stað
hrafnsvart líkband
er að höfði snúið.
 
Grátið mig, meyjar!
er guð veitti
sakleysis
síns að gæta;
þeim er hin mikla
móðir léði
afl til að kefja
ólgu veiks hjarta.
 
Mannlega hrærðist
hjarta mitt áður,
nú skal mér blíða þess
banasverð vera.
Fláráðum manni
í faðm eg hneig;
dó þar Dagrúnar
dyggð í tómi.
 
Nú er eg úr höggorms
hjarta slitin,
þess er aðra
ástum glepur;
veit eg hann brosir
og veigar kýs
meðan eg geng
til grafar minnar.
 
Leikur hann að lokkum
ljósrar meyjar,
kjassmáll og kyssir
og kossa þiggur
meðan að bunar
blóð mitt unga
á hörðum höggstokki
hálsbenjum úr.
 
Friðþjófur fagri!
á fjarlægri strönd
duni þér Dagrúnar
dauðahljómur,
gjalli ógnefldar
um eyru þér
söngdimmar bjöllur
úr sálarhliði.
 
Svo þá af mjúkum
meyjarvörum
ástarorð
þér unað færa,
særi hann harðri
helvítisund
yndisblóm ykkar,
svo þau öll hjaðni.
 
Hrærir þig að engu
harmur Dagrúnar?
svívirt meyja?
svikarinn vondi!
barn okkar beggja?
eg ber það undir hjarta;
allt sem vargsvanga
væta mætti tárum.
 
Siglir hann, siglir!
svífur skip frá landi,
grátþrotin augu
grimmum manni fylgja;
fláráður heilsar
á fjarlægri strönd
heitmey nýrri.
Svo er hjörtum skipt.
 
Barnunginn blíði
bjó á móðurskauti,
ástfalinn ungri
algleymisværð;
brostu björt augu
bláfögur móti
móðuraugum
morgunrósar.
 
Og ástfagur
allur svipur
auma margminnti
á mynd ins horfna;
varpar hann í brjóst
vesælli móður
ástar óviti
og örvæntingar.
 
„Hermdu mér, kona!
hvur er faðir minn?“
svo spyr en þögla
þrumurödd ómálgans;
„hermdu mér, kona!
hvur er maður þinn?“
hló við helvíti
í hjarta mínu.
 
Skelfing! ó skelfing!
skal til háðungar
föðurlaus sonur
að föður spyrja?
Bölva muntu
þínum burðardegi,
saurlífissonur!
ó svívirðunafn!
 
Brennur mér í hjarta
helvítisglóð
einmana móður
í alheimi víðum;
sit eg síþyrst
að sælubrunni
er eg aldrei má
augum líta.
 
Æ! því eg blygðast
barn mitt að sjá;
rifjar upp rödd þín
raunir allar mínar,
barn! og úr blíðu
brosi þínu
helörvar harðar
á hjarta mínu standa.
 
Helvítiskvöl
er mér hann að þrá;
vítiskvöl verri
verða þig að skoða;
vondir eru kossar
vara þinna,
hans er af vörum
mér að hjarta streymdu.
 
Eiðar hans allir
í eyrum mér hljóma –
meineiðar allir
margfaldlega
- allir um eilífð! –
Andskotinn þá
þreif mér þjófshönd lífs,
að þjakaði eg syni.
 
Friðþjófur! Friðþjófur!
á fjarlægri strönd
elti þig vofan
hin ógurlega,
hrífi þig hvervetna
helköldum greipum,
svipti þér sárlega
úr sæludraumi.
 
Stari þér í augu
úr stjörnum skínandi
helbrostið auga
hnigins sonar;
elti þig ógnmargt
um alheim víðan,
hneppi þig burtu
frá himindyrum.
 
Sjáið og skiljið!
sonur mér að fótum
dauðsærður lá
og dreyra roðinn;
sá eg blóð blæða,
blæddi þá ei minnur
fjör úr æðum
fáráðrar móður.
 
Harðlega knúðu
hurðir mínar
dólgar dýflissu;
dimmt var mér í hjarta,
flýtta eg mér fegin
í faðmi dauða
sálarbruna
sáran að slökkva.
 
Friðþjófur fagri!
faðirinn góði,
mildur miskunnar,
mannkindum vægir;
bið eg þann föður
þér fyrirgefa,
syndum særð,
sem eg sjálf það vil.
 
Gefa vil eg jörðu
grát minn og harm,
hefnd mína alla
og hjartaþunga!
Nú hef eg ljósan
loga kyntan,
fórn að færa
sem eg fremsta má.
 
Vel er og vel er!
vafin eru loga
bréf hans, og eiðar
eldi gefnir;
hátt loga kossar
heitir og sætir!
Hvað var mér á foldu
forðum kærra!
 
Trúið þér ei yðar
æskublóma,
aldregi, systur!
eiðum manna.
Fegurð varð að falli
farsæld minni;
bölva verð eg henni
á blóðstöð aftöku.
 
Hvurt er þér nú, böðull!
hungur í augum?
Bregðið mér bráðlega
bandi fyrir sjónir.
Hikarðu, böðull!
blómknapp að slá?
náfölur böðull!
neyttu karlmennsku.


Þýtt árið 1837.
Eiginhandarrit [uppkast] er varðveitt á Landsbókasafni (ÍB 13 fol. Handritasafn Bókmenntafélagsins).
Frumprentun í: Fjölnir 6. ár, 1843.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka